Gestur fer frá Keflavík
Knattspyrnumaðurinn Gestur Arnar Gylfason, sem lék með Keflvíkingum í Landsbankadeildinni s.l. sumar, mun ekki leika með liðinu í efstu deild á næstu leiktíð. Þetta kemur fram á www.fotbolti.net í dag.
Gestur er 37 ára gamall og með mikla reynslu en hann hefur gefið það út að hann muni leika í neðri deildunum á næstu leiktíð. Hvaða deild verður fyrir valinu er enn ekki ljóst. Gestur staðfestir við fotbolti.net að hann hafi verið í sambandi við 2. deildar lið Njarðvíkur en það komi til greina hjá honum að vera spilandi þjálfari í 2. eða 3. deild.
Leifur Gunnlaugsson, formaður Knattspyrnudeildar Njarðvíkur, sagði enn ekki útséð um leikmannamál Njarðvíkinga en verið væri að vinna í þeim en hann vildi ekki staðfesta að formlegar viðræður hefðu farið fram við Gest þó þeir hefðu vissulega verið í sambandi.
„Stefnan hjá okkur er að halda sama hóp og frá síðustu leiktíð og jafnvel bæta við okkur. Það kemur í ljós á næstunni hvernig þetta fer,“ sagði Leifur Gunnlaugsson, í samtali við Víkurfréttir.