Geirmundur hlaut gullmerki Keflavíkur
Aðalfundur Keflavíkur íþrótt- og ungmennafélags var haldinn á miðvikudag. Þar var Einar Haraldsson endurkjörinn sem formaður félagsins og stjórn félagsins var einnig endurkjörin. Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ, var sérstakur gestur fundarins og afhenti félaginu Hvatningarverlaun UMFÍ og heiðraði þau Birgir Má Bragason og Sesselju Birgisdóttur með starfsmerki UMFÍ. Hann mærði mjög starfið sem unnið er í Keflavík og hvatti Suðurnesjamenn til að sækja um að fá að halda ungmennalandsmót UMFÍ árið 2009 þar sem það hefur aldrei verið haldið í landshlutanum.
Veittar voru viðurkenningar (starfsmerki) fyrir stjórnarsetu og voru sjö bronsmerki veitt þeim Elínu Kjartansdóttur, Klemenzi Sæmundssyni, Sigríði Björnsdóttur, Ólafi Birgi Bjarnasyni, Halldóri Leví Björnssyni, Hjörleifi Stefánssyni og Þorsteini Marteinssyni.
Tvö silfurmerki voru veitt þeim, Þorgrími St. Árnasyni og Guðjóni Axelssyni.
Birgir Már Bragason og Sesselja Birgisdóttir hlutu starfsmerki UMFÍ.
Starfsbikar félagsins var veittur þeim hjónum Lindu Gunnarsdóttur og Jóni Kr. Magnússyni fyrir starf þeirra fyrir sunddeild Keflavíkur.
Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur, var heiðraður með gullmerki Keflavíkur fyrir starf sitt og stuðning við félagið en þetta er í fyrsta skiptið í sögu félagsins sem gullmerki er veitt.
Smellið á myndirnar til að stækka þær.
VF-myndir/Þorgils