Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Geirfuglar á toppnum
Föstudagur 30. júlí 2004 kl. 16:02

Geirfuglar á toppnum

Geirfuglarnir unnu stórsigur á Bundes, 7-2, í utandeildinni í vikunni.

Geirfuglarnir tylltu sér því í toppsæti síns riðils og eru í fínum málum. Leikurinn var fjörugur og viðburðarríkur og þótti Víkurfréttum rétt að birta eftirfarandi pistil um framvindu leiksins sem er tekin af heimasíðu þeirra félaga, geirfuglar.net.

Geirfuglar fljúga á toppinn, unnu Bundes 7-2
Það var svo sannarlega viðburðarríkur leikur sem fram fór að Ásvöllum í gær (innsk. VF: á þriðjudag). Þeir áhorfendur sem lagt höfðu leið sýna á völlinn var svo sannarlega skemmt, frítt var á völlinn og mætti kærastan hans Heiðars, sem á hrós skilið fyrir að mæta svona vel. Án efa okkar fremsti stuðningsmaður.

Leikurinn hófst hörmulega fyrir Geirfugla þegar sending sem í fyrstu sýndist hættulítil smaug framhjá vörninni og framherji Bundes komst einn innfyrir og skoraði örugglega. Þetta mark gaf Bundes mönnum mikið sjálfstraust og okkar menn virtust vankaðir eftir markið og áttu erfitt með að koma sér aftur inn í leikinn. Um miðbik fyrri hálfleiks gerðist leiðinlegt atvik. Sending kom inn fyrir á Dabba sem hljóp að boltanum en markvörður Bundes varð fyrri til en úr varð mikill árekstur sem endaði með því að markvörðurinn rifbeinsbrotnaði. Um algjört slys var að ræða og óskum við markverðinum góðs bata. Nokkrum mínútum síðar var Dabbi aftur kominn í gegn en varnarmaður Bundes klippti hann niður innan teigs og fékk rauða spjaldið að launum. Vítaspyrna var dæmd sem Dabbi skoraði sjálfur úr. Staðan orðin jöfn og hélst þannig þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Alls ekki nógu gott hjá okkar mönnum og allan neista vantaði í liðið. Seinni hálfleikur byrjaði jafnilla og sá fyrri. Varnarmenn okkar ætluðu að spila sig í gegnum leikmenn Bundes sem endaði með því að leikmaður Bundes komst inn í sendingu og skoraði. Staðan orðin 2-1 fyrir Bundes og menn hristu hausinn yfir spilamennsku okkar. En karakterinn í liðinu er svakalegur. Menn róuðu sig niður og fóru að spila boltanum betur innan liðsins. Stuttu eftir mark Bundes kom jöfnunarmarkið. Palli og Dabbi stukku báðir upp í skallabolta sem endaði í markinu. Eftir leik voru miklar rökræður um hver ætti markið en það kom í ljós að dómarinn hafði sett það á Dabbann. En Dabbinn vill koma á framfæri þökkum til Palla fyrir aðstoðina. Eftir markið tóku Geirfuglar öll völd á vellinum og rúlluðu yfir lið Bundes. Mörkin komu á færibandi. Dabbi skoraði sitt þriðja mark stuttu seinna eftir eitraða stungu frá Begga. Hjalti bætti við fjórða markinu eftir sendingu frá Dabba. Beggi skoraði svo tvö glæsileg mörk, annað eftir frábæra sendingu frá Palla. Hann skoraði svo sjálfur sjöunda og síðasta markið eftir að Dabbi hafði sólað markvörðinn og gefið á hann. Undir lokin var öðrum leikmanni Bundes vikið af velli eftir grófa tæklingu á Dabba. Sjaldan hefur fréttaritari séð Dabbann jafnreiðan og vonandi gerist það ekki aftur.

Maður leiksins: Dabbinn átti athyglisverðan dag. Þrjú mörk, tvær stoðsendingar, átti hlut í að senda markvörðinn á slysó og bæði rauðu spjöldin komu eftir brot á honum. Hann lenti einnig í skýrslutöku hjá lögreglunni í hálfleik. Þess má geta að nafn Dabbans kemur 10 sinnum fyrir í umfjöllun leiksins sem er Geirfuglamet.

Setning leiksins: “ Ég snerti hann ekki”, rautt spjald í kjölfarið.

Kombakk leiksins: Hlynur Jóhanns mættur aftur eftir langa fjarveru.

Þol leiksins: Geiri er greinilega búinn að drekka of marga bjóra í USA.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024