Gefur þeim fullorðnu ekkert eftir
Halldór Matthías stefnir á Evrópumót og MMA
Halldór Matthías Ingvarsson er 14 ára bráðefnilegur bardagakappi úr Njarðvík. Halldór hóf að æfa íslenska glímu í fyrra og hefur hann þegar náð að stimpla sig í íþróttina með glæsibrag. Áður var hann byrjaður að æfa júdó og brasilískt jiu jitsu. Hann keppir í öllum þessum greinum og hefur náð afbragðs árangri í þeim öllum.
Að sögn Halldórs eru æfingarnar skemmtilegar og félagsskapurinn góður hjá Sleipni, sem er júdódeild UMFN. Undir merkjum deildarinnar eru keppt í júdó, íslenskri glímu, akido og brasilísku jiu jitsu. Margir efnilegir bardagamenn eru innan félagsins og hefur árangur Njarðvíkinga verið frábær undanfarin misseri.
Halldór sem er rétt að verða 15 ára eftir nokkra daga, er tæplega 1.90 cm að hæð og 100 kg að þyngd. Hann segist alltaf hafa verið sterkur miðað við aldur. Það virðist sannarlega vera því pilturinn hefur verið að glíma við fullorðna þar sem hann gefur ekki þumlung eftir. Á Fjórðungsmóti Glímusambands Íslands á dögunum nældi Halldór sér í bronsverðlaun í fullorðinsflokki „Ég er ekkert smeykur við það að keppa við fullorðna. Það er ekki svo erfitt. Þar fæ ég betri reynslu,“ segir Halldór við blaðamann VF.
Hann á sér háleit markmið og stefnir að því að æfa af kappi og reyna að komast á Evrópumeistaramót í júdó eða BJJ þegar fram líða stundir. Eins dreymir hann um að keppa í blönduðum bardagalistum í framtíðinni. Þá horfir hann til UFC þar sem Gunnar Nelson er ein af skærustu stjörnunum.
Fóru á kostum í Skotlandi
Halldór fór til Skotlands ásamt fleiri efnilegum Njarðvíkingum í sumar þar sem hann keppti í keltneskri glímu á hálandaleikum. Greinin svipar til íslenskrar glímu en Halldór hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki. Njarðvíkingarnir Ægir Már Baldvinsson og Bjarni Darri Sigfússon sigruðu sína þyngdarflokka á leiknum ásamt því að þjálfarinn Guðmundur Gunnarsson komst í úrslitaglímuna þar sem hann tapaði gegn Evrópumeistaranum í greininni. Sleipnismenn létu því sannarlega til sín taka á skoskri grundu. Á nýju ári ætlar Halldór að vera enn duglegri að æfa og bæta sig í öllum greinum. Hann er nú þegar að æfa nánast alla daga og því er ljóst að metnaðurinn er sannarlega til staðar. Spennandi verður að fylgjast með Halldóri og félögum hans á nýju ári.
Halldór (lengst t.v.), Bjarni Darri Sigfússon og Ægir Már Baldvinsson í Skotlandi.