Gefur 80 snakkpoka í kvöld
Stórskyttan Magnús Gunnarsson komst í fréttirnar á dögunum en af allt öðrum ástæðum en tengjast hæfileikum hans á körfuboltavellinum. Flestir hafa nú heyrt af því er Magnús gæddi sér á Lays snakki á bekknum í DHL-höllinni gegn KR en þá var Magnús nýkominn úr maga- og ristilspeglun. Þeir hjá Ölgerðinni sem eru með umboð fyrir snakkið fræga gátu hreinlega ekki annað en að færa Magnúsi kassa af Lays flögum að gjöf.
„Þetta er bara fyndið og greinilega fínasta auglýsing fyrir þá. Mér fannst þetta vera hálfgerð gúrkutíð hjá fréttamönnum en þeir hefðu mátt fjalla meira um leikinn sjálfan en að gera eitthvert stórmál úr þessu. En það virðist vera að Ölgerðin sé að græða á þessu, sem er bara af hinu góða,“ sagði Magnús þegar blaðamaður Víkurfrétta færði honum kassann með Lays flögunum.
Í leiknum gegn Þór Þorlákshöfn á dögunum þá veifuðu einhverjir áhorfendur þeirra snakkpokum en Maggi varð ekki mikið var við það. „Eina sem ég heyrði var að þeir sögðu að ég hefði grennst, ætli það hafi ekki verið út af snakkinu. Þeir mega svo endilega koma á leikina hjá mér og veifa snakkpokum í stúkunni, þá fer allt ofaní hjá mér,“ segir Magnús kokhraustur.
„Ég spila alltaf best ef að einhver er að bauna yfir mig. Ef að fólk vill endilega sjá mig skora 25-30 stig þá má það endilega láta mig heyra það, ef það kemur svo með snakkpoka þá er aldrei að vita nema ég fái mér nokkrar flögur í leikslok,“ segir Maggi á léttu nótunum.
„Ég fór í speglun klukkan 10 um morguninn og vakna úr svæfingu klukkan tæplega 13:00. Síðan kom ekkert annað til greina en að spila þennan leik gegn KR. Það eru vissir leikir sem að maður sleppir ekki, alveg sama hvað er manni. Það vantaði allan líkamann í þennan leik gegn KR. Ég spilaði full mikið miðað við að það var ekkert vatn í líkamanum, ég var byrjaður að fá krampa strax í fyrsta leikhluta. Síðan eftir leikinn þá var bara eins og ég hefði ekki hreyft mig í 15 ár, ég var með harðsperrur um allan líkamann næstu daga. Þegar ég losna við harðsperrurnar þá er eins og ég hafi rifið vöðva aftan í lærinu og ég átti ekki að spila leikinn gegn Njarðvíkingum. Eins og kannski einhverjir tóku eftir þá sat ég á bekknum þar en 20 mínútum fyrir leik þá ákvað ég að ekki væri hægt að sleppa nágrannaslagnum og skellti mér í búning,“ en Magnús skoraði 17 stig í þeim leik á annari löppinni.
Magnús meiddist svo á ökkla gegn Þór og er því ekki víst hvort hann leiki gegn Hamarsmönnum í Lengjubikarnum í kvöld. Magnús ætlar sér þó að gefa tæplega 80 snakkpoka í kvöld sem hann fékk frá Lays.
Magnús segist annars vera að finna sig vel á þessu tímabili og hann segist afar ánægður með þá erlendu leikmenn sem eru í Keflvíkurliðinu. „Þeir eru alltaf tilbúnir að gefa á mann og það sýnir að maður sé að gera eitthvað rétt. Ég er á ágætis róli og er að hitta þokkalega. Ég er með ákveðið skotleyfi en það er þó innan skynsamlegra marka og þjálfarinn talar nú alveg við mig ef ég er að skjóta lélegum skotum. Mér finnst ég hafa unnið mér það inn að fá að skjóta þegar ég vil. Ég gleymi því ekki hvernig Guðjón Skúlason lét, hann sagði manni bara að hann tæki bara skotið þegar hann vildi og ef maður lét hann heyra það þá sagði hann bara „vertu ekki að þessu nýliði, ég tek bara skot þegar mér sýnist,“ maður er kannski að komast á þann stall,“ segir Magnús að lokum.