Garðbúarnir sáu um Fjarðabyggð
Eftir jafntefli í síðustu tveimur leikjum kom loks sigur hjá Keflavík
Keflvíkingar hristu af sér jafnteflis timburmennina úr síðustu tveimur leikjum með því að sigra Fjarðabyggð 2-0 á heimavelli sínum í 1. deild karla í fótboltanum nú rétt í þessu. Það voru Garðbúarnir í liði Keflavíkur sem sáu um mörkin að þessu sinni. Keflvíkingar eru í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir grönnum sínum úr Grindavík.
Góð samvinna ættuð úr Garðinum var uppskriftin að fyrsta marki leiksins sem koma eftir 35 mínútur. Guðjón Árni Antoníusson tók þá innkast og fékk boltann aftur. Hann sendi fasta fyrirgjöf með vinstri fæti fyrir markið, þar sem sveitungur hans Magnús Þórir Matthíasson stangaði boltann örugglega í markið. Einfalt og árangursríkt.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og ekki var mikið um hættuleg færi í fyrri hálfleik þó svo að Keflvíkingar væru alltaf líklegri til afreka upp við rammann.
Eftir klukkustundar leik koma seinna mark Keflavíkur en það var sömuleiðis beinustu leið úr Garðinum. Jóhann Birnir Guðmundsson fékk þá langa sendingu út á vinstri kantinn og tók laglega á móti boltanum. Hann dansaði svo af sér tvo varnarmenn og skaut hnitmiðuðu skoti niður í hornið nær frá vítateigsboganum. Fallegt mark hjá þessum tæplega fertuga leikmanni.
Gestirnir virtust ekki líklegir til þess að laga stöðuna en þeir náðu þó að minnka muninn með síðustu spyrnu leiksins. Því var sigurinn aldrei í hættu hjá Keflvíkingum þó svo að ekki hafi verið boðið upp á fótbolta í hæsta gæðaflokki á Nettóvellinum.