Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gamli Keflvíkingurinn skoraði bæði mörk KR í sigri í Keflavík
Sunnudagur 12. maí 2013 kl. 21:53

Gamli Keflvíkingurinn skoraði bæði mörk KR í sigri í Keflavík

Tap í fyrstu tveimur leikjum Pepsi-deildarinnar hjá Keflavík.

„Þetta var ekki góður leikur hjá okkur. Neistinn var allur KR meginn,“ sagði Zoran Ljubicic, þjálfari Pepsi-deildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu eftir 0-2 tap á Nettó vellinum í Keflavík í kvöld. Keflvíkingar hafa tapað tveimur fyrstu leikjunum, fyrst gegn FH og nú gegn þeim röndóttu.

„Það ætlar að ganga illa að fá heimavöllinn í gang fyrir okkur,“ sagði Zoran en sjá má ítarlega videoviðtal hér á vf.is. Baldur Sigurðsson var hetja KR-inga en hann skoraði bæði mörk gestanna. Baldur lék með Keflavík í þrjú tímabil, árin 2005-2007 og varð m.a. bikarmeistari með bítlabæjarliðinu. Hann kunni vel við sig í Keflavík og gulltryggði KR sigurinn með tveimur frábærum mörkum. Það fyrra kom með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar í fyrri hálfleik og hitt en enn flottara með skoti upp í skeytin sem markvörður Keflavíkur átti ekki möguleika á að verja, í byrjun seinni hálfleiks.

KR-ingar voru mun betri í fyrri hálfleik en eftir að þeir höfðu komist yfir átti Frans Elvarsson, besti maður heimamanna auk markvarðar Keflavíkur, skot sem Hannes KR-markvörður varði á snilldarlegan hátt. Það er ljóst að hefði þessi bolti verið inni er ekki gott að segja hvernig leikurinn hefði þróast.

Keflvíkingar voru mun meira með boltann en KR í seinni hálfleik en þeir náðu ekki að nýta sér það. Fá marktækifæri sáu dagsins ljós og það vantaði einhvern veginn bitið fremst.

Það var ánægjulegt að sjá unga leikmenn Keflavíkur koma inn á í lokin, þá Elías Má Ómarsson og Andri Fannar Freysson. Arnór Ingvi Traustason lék ekki í fyrri hálfleik þar sem hann var ekki heill heilsu fyrir leikinn.

Það er mjög mikilvægur leikur í næstu umferð hjá Keflavík þegar þeir heimsækja Víking í Ólafsvík á fimmtudaginn. „Úrslitaleikur eiginlega,“ sagði Zoran þjálfari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar í sókn en KR-ingar verjast vel. VF-myndir/PállOrri.

Sigurbergur Elísson í baráttunni í kvöld.