Gamla myndin: Óskar Örn Hauksson
Í myndasafni Víkurfrétta má finna ógrynnin öll af myndum langt aftur í tímann. Við grams blaðamanns fannst þessi skemmtilega mynd af Óskari Erni Haukssyni. Óskar gekk nýverið í raðir KR-inga en síðustu tímabil hefur hann leikið með Grindvíkingum. Óskar er borinn og barnfæddur Njarðvíkingur og lék með félaginu upp yngri flokkana. Víkurfréttir fengu Óskar til að rýna í meðfylgjandi mynd og hann stóð sig bara nokkuð vel.
Það fyrsta sem kom Óskari í hug er hann sá myndina var: „Aron var alltaf með ennisband,“ sagði Óskar um kunningja sinn Aron Smárason sem leikur með 1. deildarliði Njarðvíkur. Aron er lengst til hægri á myndinni, með rauða ennisbandið.
„Ég held að ég hafi alltaf verið með legghlífarnar utan yfir sokkana á þessum tíma en ég er svona 9 eða 10 ára á þessari mynd,“ sagði Óskar sem á myndinni er í kunnuglegri stellingu, að leggja boltann fyrir fallbyssuna vinstra megin.
Á búning dökkhærða leikmannsins aftan við Óskar má sjá auglýsinguna „Allabúð á Stokkseyri.“ Óskar var nokkuð viss um að þessi dökkhærði snáði væri Arilíus Marteinsson frá Selfossi en Arilíus hefur m.a. leikið með ÍBV.
Tískan er nánast ómissandi þáttur í þessum heimi svo það stóð ekki á blaðamanni um að spyrja í hvers kyns takkskóm Óskar hefði verið þarna. „Ég held að ég sé í Patrick-skóm, það var annar hvor Laudrup bróðirinn sem áritaði á skóna og þeir svo fjöldaframleiddir, man ekki hvort það var Brian eða Michael,“ sagði Óskar en hann þóttist nokkuð viss um hver væri nr. 15 á myndinni. „Ég þykist vita að þetta sé Einar Oddsson, annar borinn og barnfæddur Njarðvíkingur sem hefur verið á mála hjá Víkingum. Ljósi kollurinn á milli mín og Arons er svo Henning Jónasson sem hefur verið að æfa með KR að undanförnu,“ sagði Óskar.
Ef Óskar minnti rétt þá var það Einvarður Jóhannsson sem þjálfaði hann á þessum tíma en Björgvin Friðriksson kom einnig til greina, hann var ekki alveg viss. Óskar man ekki hvað liðið frá Stokkseyri heitir og hann man ekki heldur hvernig þessi leikur fór. Engu að síður fannst honum skrýtið að þetta skyldi hafa verið á Keflavíkurvelli og taldi þá líklegt að þetta hafi verið á einhverju fjölliðamótinu.
Undirbúningstímabilið hjá Óskari og nýju liðsfélögum hans í KR er nú í gangi og það eru stífar æfingar framundan allt inn í sumarið. „Þann 10. febrúar förum við til La Manga á Spáni og tökum þar þátt í æfingamóti með toppliðum frá Noregi, Rússlandi og fleiri liðum frá Austur-Evrópu,“ sagði Óskar en hann er sannfærður um að KR verði í toppbaráttunni næsta sumar.
„Gamla myndin“ er nýr liður hjá Íþróttadeild Víkurfrétta og gefst lesendum færi á því að koma með gamlar myndir úr íþróttalífi Suðurnesja og hjálpa til við „upprifjunina“ ef svo má að orði komast.
Þeir sem hafa hug á því að birta gamlar myndir hafi samband á vefpóstinn [email protected] eða [email protected]