Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Gamla myndin: Kristinn Óskarsson
Mánudagur 5. febrúar 2007 kl. 14:17

Gamla myndin: Kristinn Óskarsson

Að þessu sinni er það Kristinn Óskarsson körfuknattleiksdómari og formaður Körfuknattleiksdómarafélags Íslands sem ræðir gömlu myndina við Víkurfréttir. Kristinn er best þekktur fyrir störf sín sem dómari en það sem færri vita er að hann var á árum áður liðtækur handknattleiksmaður eins og svo margir aðrir Suðurnesjamenn. Kristinn er með það á hreinu að körfuboltadómararnir séu betri en handboltadómarar og lenti á sínum tíma næstum því í handalögmálum við Þorbjörn Jensson, leikmann Vals og síðar landsliðsþjálfara í handbolta.

 

Manstu hver tók þessa mynd?

Ég man ekki eftir að hafa séð þessa mynd áður og get því ekki annað en getið mér til um ljósmyndarann. Ljósmyndari VF á þessum árum var Halldór Rósmundur (HRÓS) og var hann mikill áhugamaður um íþróttir og handbolta og lék sjálfur í  ”gamla daga.” Mér þætti ekki ólíklegt að hann hafi tekið þessa mynd.

 

Hvaða lið eigast þarna við?

Þarna er sameinað lið ÍBK og UMFN sem bar nafnið HKN og við erum að leika gegn FRAM.

 

Árið hvað var þetta?

Þetta er sennilega árið 1993, annars er minnið orðið gloppótt og ég get ekki alveg fullyrt um það.

 

Varst þú alltaf á línunni eða var þetta gegnumbrot?

Ég lék handbolta í mörg ár og var prófaður í ýmsar stöður. Ég var þó mest í skyttustöðum og stöðu leikstjórnanda svo þarna er um klárt gegnubrot að ræða, enda gabbhreyfingar mínar ær og kýr. Klassískt að stökkva upp, þykjast skjóta, stinga boltanum niður og brjótast í gegn. Margir féllu fyrir því!

 

Hver þjálfaði ykkur þarna?

Ég hygg að það hafi verið Hannes Leifsson sem er núverandi yfirlögregluþjónn á Hólmavík.

 

Hvernig fór leikurinn?

Hef ekki hugmynd, en við hljótum að hafa unnið enda með ágætt lið á þessum árum.

 

Hvað skoraðir þú mörg mörk?

Þar sem ég hef ekki upplýsingar um þennan leik þá veit ég það ekki.  Ég skoraði alltaf eitthvað af mörkum.

 

Eftirminnilegast við handboltaferilinn?

Ég myndi vilja nefna þrennt; þjálfararnir og KR-ingarnir Haukur Ottesen og Ólafur Björn Lárusson voru fínir tappar, meðspilararnir voru frábærlega skemmtilegir, má þar á meðal 

annarra nefna bræðurna Sigurð og Björgvin Björgvinssyni, Gísla og Hafstein og Jón Olsen sem ég síðar vann hjá og og lít mikið upp til. Að síðustu var það bikarleikur á móti Val þegar þeir voru uppá sitt langbesta, með landsliðsmenn á bekknum og allt. Mér fannst mínir menn ekki berjast nóg en sjálfur barðist ég kanski full harkalega og Jakob Sigurðsson, sá góði drengur, nefbrotnaði í einu samstuðinu við mig. Þorbjörn Jensson ætlaði í mig en Óli Lár náði að róa kauða. Þetta voru skemmtilegir tímar.

 

Hvaða auglýsing er þetta á stuttbuxunum?

Þetta er auglýsing frá hárgreiðslustofunni Hár-inn en hana sótti ég einmitt á þessum tíma.

 

Hverjir eru betri, handbolta- eða körfuboltadómarar?

Ég hóf sjálfur að dæma í efstu deild körfunnar 1988 og dæmdi í körfu og spilaði handbolta saman í nokkur ár, þannig að samanburðurinn var talsverður á þessum tíma.  Ég var frekar skapstór á þessum árum og mér líkaði fremur illa við handboltadómara og fannst þeir lélegir. Þegar ég fann að ég átti erfitt með að stjórna skapsmunum mínum í íþróttinni fattaði ég að þeir voru ekki vandamálið heldur ég sjálfur.  Þetta var ein af ástæðunum af hverju ég hætti.

 

Ég held að handknattleiksdómarar séu í framför en þeir eru klárlega á eftir okkur í körfunni!

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024