Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 22. janúar 2004 kl. 11:34

Gaines snýr aftur til Njarðvíkurliðsins. Sakleysi hennar sannað

Andrea Gaines, leikmaður og þjálfari Njarðvíkurliðsins í körfuknattleik kvenna mun snúa aftur til Íslands í fyrramálið og spila á nýjan leik með sínu liði á endaspretti 1. deildarinnar.

Gaines var handtekin við komuna til Bandaríkjanna er hún kom heim í jólafrí og var sökuð um bílstuld og skjalafals. Hún þurfti að sitja í fangelsi í 17 daga þar til henni var sleppt, enda var ljóst að ekki væri flugufótur fyrir ásökununum, heldur höfðu vafasamir aðilar komist yfir skilríki hennar og notað í glæpsamlegum tilgangi. Hún hefur gengið laus í rúma viku og hefur verið að ná sér eftir áfallið, en snýr nú aftur til að klára tímabilið. Í fjarveru hennar gekk liðinu illa ef undan er skilinn leikur þeirra gegn ÍR í gær. Gaines var kjölfestan í liðinu og skoraði 23 stig í leik að meðaltali ásamt því að taka 10 fráköst. Þá hefur hún verið meðal skæðari varnarmönnum deildarinnar.

Jón Júlíus Árnason, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, segir mikla ánægju í þeirra herbúðum með fréttirnar og að Andrea sjálf sé spennt fyrir að snúa aftur. „Hún er mjög hress og hlakkar til að mæta aftur til leiks. Nú er bara að taka á því í deildinni. Við eigum ekki eftir að láta 4. sætið af hendi baráttulaust!“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024