Fyrstu stig Reynis í hús eftir framlengdan leik
Reynir Sandgerði og Þróttur Vogum mættust í Suðurnesjaslag í 1. deild karla í körfuknattleik í dag þar sem Reynismenn tryggðu sér sín fyrstu stig í deildinni. Fyrir leikinn voru bæði lið án stiga í deildinni en úrslitin réðust í framlengdum leik í Sandgerði þar sem spennan var í algleymingi. Lokatölur leiksins voru 86-79 Reyni í vil.
Hart var barist í Sandgerði í dag og leikmenn beggja liða hvergi bangnir við að láta dæma á sig villur. Staðan í hálfleik var 33-29 Reyni í vil og nokkuð um mistök á báða bóga.
Grétar Garðarsson var drjúgur fyrir Þróttara í þriðja leikhluta og skoraði góðar körfur á blokkinni og var staðan 55-53 Reyni í vil fyrir lokaleikhlutann og Ólafur Aron Yngvason var að leika vel í liði Reynis. Mikil spenna var í fjórða og síðasta leikhlutanum og skiptust liðin á því að hafa forystuna. Þegar líða tók á leikhlutann sigu heimamenn fram úr en Þróttarar gerðu vel og náðu á endanum að knýja fram framlengingu þegar Jónas Ingason setti niður tvö víti og tæp sekúnda til leiksloka.
Í framlengingunni gerðu heimamenn fyrstu stigin og komust svo í 80-77 með góðri þriggja stiga körfu sem virtist kveikja í þeim og Þróttarar náðu ekki að klóra sig að nýju inn í leikinn eftir þetta. Lokatölur
86-79 í miklum baráttuleik.
Þróttur er því enn á botni deildarinnar án stiga en Sandgerðingar klifruðu lítið eitt upp stigatöfluna.
Staðan í deildinni
[email protected]