Fyrsti útisigur Stjörnunnar kom í Ljónagryfjunni
Stjörnumenn frá Garðabæ höfðu ærna ástæðu til þess að fagna í kvöld er þeir lögðu Njarðvíkinga 78-81 í Ljónagryfjunni. Þar með töpuðu grænir sínum þriðja deildarleik í röð en Stjörnumenn unnu sinn fyrsta útisigur í úrvalsdeild í sögu félagsins. Þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Brenton Birmingham gerðu báðir 15 stig í liði Njarðvíkur en Dimitar Karadzovski gerði 21 stig í liði Stjörnunnar.
Stjörnumenn voru ívið sterkari í upphafi leiks og leiddu 21-18 að loknum fyrsta leikhluta en liðin gerðu bæði 19 stig í öðrum leikhluta og staðan því 40-37 Stjörnunni í vil þegar blásið var til leikhlés.
Gestirnir úr Garðabæ börðust af miklum krafti á meðan sóknarleikur heimamanna var fremur stirður og þunglamalegur. Nokkur spenna var þó í þriðja leikhluta sem Stjarnan vann naumlega 23-20 og staðan því 63-57 fyrir síðasta leikhlutann.
Maurice Ingram fékk sína fimmtu villu um miðbik fjórða leikhluta og varð frá að víkja í liði Stjörnunnar en gestirnir með Dimitar í fararbroddi gáfu hvergi eftir og uppskáru að lokum verðskuldaðan sigur 78-81. Njarðvíkingar áttu síðustu sókn leiksins þegar 5 sekúndur voru til leiksloka og gátu komið leiknum í framlengingu en lokaskot Harðar Axels Vilhjálmssonar geigaði og því fögnuðu Stjörnumenn vel og innilega þessum fyrsta útisigri sínum.
VF-Myndir/ [email protected] – Á efri myndinni fagna Stjörnumenn með áhorfendum sínum en á neðri myndinni er Jóhann Árni Ólafsson í baráttunni gegn Eiríki Sigurðssyni leikmanni Stjörnunnar.