Fyrsti sigur Þróttar í Lengjudeildinni
Þróttarar stigu stórt skref í sögu félagsins í gærkvöld þegar þeir unnu fyrsta sinn í næstefstu deild karla í knattspyrnu. Það voru nágrannaliðin Þróttur og Grindavík sem áttust við á Vogaídýfuvellinum og heimamenn höfðu betur í viðureigninni með tveimur mörkum gegn engu.
Þróttarar voru mun betra liðið í gær og hleyptu gestunum aldrei inn í leikinn. Þróttur pressaði vel, varnarleikur liðsins var þéttur og sóknarleikurinn beittur. Sigur heimamanna hefði hæglega getað orðið stærri en þeir sköpuðu sér nokkur stórhættuleg færi utan þeirra sem mörkin komu upp úr.
Gestirnir urðu fyrir áfalli á 35. mínútu þegar brotið var á nýjasta leikmanni Þróttar, Hans Kamta Mpongo, sem lék sinn fyrsta leik með liðinu í gær. Mpongo reyndi að ná til fyrirgjafa í markteig Grindvíkinga en lenti í samstuðu við varnarmann, féll við og vítaspyrna dæmd. Ppongo tók vítið sjálfur og kom Þrótti í forystu. Hann þurfti reyndar tvær tilraunir en endurtaka þurfti vítið þar sem leikmenn voru farnir af stað inn í teig áður en spyrnan var tekin – Mpongo skoraði samt úr báðum tilraunum.
Skömmu eftir markið komst hinn sprettharði Ruben Lozano Ibancos einn inn fyrir vörn Grindavíkur en úr álitlegu færi fór skot hans í stöngina og Grindvíkingar sluppu með skrekkinn. Grindvíkingar áttu í mestu vandræðum með þá Ibancos og Mpongo sem voru mjög ferskir í framlínu Þróttar í leiknum. Staðan 1:0 fyrir heimamenn í hálfleik og viðbúið að Grindvíkingar myndu setja meira í sóknina í þeim seinni.
Þróttarar voru samt sem áður ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir og var framlag og barátta liðsins lofsverð. Það var ekki liðið langt á seinni hálfleik þegar Mpongo vann boltann af Viktori Guðberg Haukssyni á miðjum vellinum, náði einhvern veginn að snúa sig framhjá tveimur varnarmönnum var skyndilega einn á auðum sjó. Mpongo kláraði færið af yfirvegun og lagði boltann snyrtilega í netið án þess að Aron Dagur Birnuson í marki Grindavíkur kæmi nokkrum vörnum við (51'). Þróttur kominn með tveggja marka forystu og engin merki sjáanleg um að þeir væru að slaka neitt á.
Grindavík gerði nokkrar breytingar á sínu liði í seinni hálfleik en það skilaði litlu. Vörn Þróttar var föst fyrir og hélt út allan leikinn, þegar Grindavík kom skoti á mark Þróttar var markvörðurinn Rafal Stefán Daníelsson á tánum og varði allt sem á hann kom. Hann var mjög öruggur í marki heimamanna og greip vel inn í þegar Grindvíkingar gerðust nærgöngulir upp við mark Þróttar.
Fögnuður Þróttar var mikill þegar dómari leiksins flautaði leikinn af enda fyrsti sigur þeirra í Lengjudeildinni í ár. Þróttur situr ennþá í neðsta sæti með fimm stig, tveimur stigum á eftir KV og sex stigum á eftir Þór sem er þriðja neðsta liðið, Þróttarar eiga þó einn leik til góða á KV og geta með sigri komist úr botnsætinu.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Vogaídýfuvellinum og tók myndir sem eru í myndasafni neðst á síðunni.