Fyrsti sigur Reynismanna
Reynismenn gerðu góða ferð norður á Grenivík í gær þar sem þeir mættu Magnamönnum í 2. deild karla í knattspyrnu. Reynir var án stiga fyrir leikinn og í neðsta sæti en Magni í því næstneðsta, því var mikið í húfi fyrir bæði lið. Það var aðeins eitt mark skorað í leiknum og það gerðu Reynismenn í uppbótartíma.
Hvorugt lið hefur verið til í gefa tommu eftir og það sést vel á fjölda spjalda í leiknum; Reynismenn fengu að sjá fimm gul spjöld í leiknum en hjá Magna voru þrjú gul spjöld og tveimur leikmönnum var vikið af leikvelli í seinni hálfleik. Útlit var fyrir að leikurinn yrði markalaus en á fimmtu mínútu uppbótartíma (90'+5) náði Strahinja Pajik að brjóta ísinn og tryggja Reyni fystu stigin sín í 2. deild í ár.
Eftir átta umferðir er Reynir í neðsta sæti með þrjú stig en fimm lið eru í einum hnapp á botninum; KFA og Höttur/Huginn eru með sex stig, Víkingur Ólafsvík með fimm og Magni fjögur, svo hlutirnir geta verið fljótir að breytast.
Vestri - Grindavík 2:1
Grindvíkingar eru í fimmta sæti Lengjudeildar karla eftir tap gegn Vestra á Ísafirði í gær.
Tómas Leó Ásgeirsson kom Grindavík yfir í leiknum (23') en heimamenn skoruðu tvö mörk í seinni hálfleik.