Fyrsti sigur Keflvíkinga í A-deildinni
Keflavík, sem sat hjá í fyrstu umferð A-deildarinnar, mætti Stjörnunni í Garðabæ í gær og hafði afgerandi sigur. Birna Valgerður Benónýsdóttir fór fyrir liði Keflavíkur og skoraði 21 stig.
Nú er nýtt fyrirkomulag á mótinu í Subway-deild kvenna og búið að skipta henni í efri og neðri hluta, A-deildin er skipuð ilðum úr efri hluta deildarinnar en þar sem fimm lið eru í A-deildinni situr eitt hjá í hverri umferð.
Stjarnan - Keflavík 63:102
Fyrri helmingur fyrsta leikhluta var jafnt á með liðunum en í stöðunni 10:10 settu Keflvíkingar í fluggírinn og skildu Stjörnukonur eftir í rykinu. Keflavík hafði fimmtán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta (16:29) og má segja að heimaliðið hafi ekki á séns eftir það.
Stjarnan náði að minnka muninn í ellefu stig í öðrum leikhluta (39:50) en aftur keyrði Keflavík upp sinn leik og jók muninn á ný, staðan 50:78 fyrir síðasta leikhluta.
Stjarnan var búin að kasta inn hvíta handklæðinu og gerði aðeins þrettán stig í síðasta leikhluta á meðan Keflavík raðaði niður 24 stigum. Yfirburðasigur því hjá toppliði Keflavíkur sem heldur toppsætinu í heljargreipum.
Stigaskorarar Keflavíkur: Birna Benónýsdóttir 21 stig, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 14 stig, Sara Rún Hinriksdóttir 14 stig, Danela Wallen 13 stig, Anna Ingunn Svansdóttir 12 stig, Elisa Pinzan 12 stig, Eygló Kristín Óskarsdóttir 6 stig, Anna Lára Vignisdóttir, Lovísa Sverrisdóttir og Thelma Ágústsdóttir 3 stig hver og Ásdís Jónsdóttir 1 stig.