Fyrsti sigur Grindvíkinga kom í bragðdaufum grannaslag
Grindvíkingar unnu sinn fyrsta sigur í sumar þegar þeir slógu Keflvíkinga út í bikarkeppni KSÍ í kvöld með 0-1 sigri á Nettóvellinum í Keflavík. Leikurinn var ekki mikið fyrir augað og á löngum köflum mjög bragðdaufur.
Það var Alex Feyr Hilmarsson sem skoraði mark Grindvíkinga eftir rétt rúmlega hálftíma leik en skömmu áður höfðu Grindvíkingar átt skot í slá og Alexander Magnússon átti lúmskt skot í utanverða stöngina.
Keflvíkingar áttu líka sín færi í fyrri hálfleik en Óskar Pétursson markvörður gestanna varð vel í nokkur skipti og bjargaði marki.Grindvíkingar náðu að loka vel á spil Keflvíkinga og varnarleikur þeirra var mjög þéttur þar sem fimm menn skipuðu öftustu varnarlínuna.
Í Seinni hálfleik gerðist lítið markvert og Grindvíkingar fögnuðu innilega í leikslok enda hefur liðið ekki haldið hreinu það sem af er sumri og er þetta fyrsti sigur liðsins.
Arnór Ingvi Traustason hjá Keflavík var valinn í U-21 lið Íslands í dag. Hér er hann í háloftunum.
Alex Freyr Hilmarsson fagnar sigurmarki sínu í leiknum.
Óskar Pétursson ver glæsilega frá Jóhanni B. Guðmundssyni.
Jóhann Benediktsson á ferðinni upp kantinn.
Sigurbergur Elísson átti nokkur færi eftir að hann kom inná.
Einari Orra Einarrsyni og Marko Valdimar Stefánssyni sinnaðist í leiknum og uppskáru þeir báðir spjald fyrir vikið.
Glaðir Grindvíkingar í leikslok.
Efsta mynd: Alex Freyr skorar með fínu vinstri fótar skoti.
VF Myndir: Eyþór Sæmundsson og Páll Orri Pálsson.