Fyrsti opinberi leikur Njarðvíkur í meistaraflokki kvenna
Það var sögulegur viðburður í gær þegar kvennalið Njarðvíkur í knattspyrnu lék sinn fyrsta opinbera leik. Njarðvík tók þá á móti Grindavík í Mjólkurbikar kvenna, leiknum lauk með sex marka sigri Grindvíkinga en það er óhætt að segja að Njarðvíkingar hafi staðið sig vel í þessari frumraun sinni.
Grindavík var sterkari eins og við var að búast en þær grindvísku brutu ísinn á 10. mínútu þegar Jada Lenise Colbert skoraði framhjá Örnu Lind Kristinsdóttur í marki Njarðvíkur. Sigríður Emma F. Jónsdóttir tvöfaldaði forystu gestanna á 14. mínútu og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Sókn Grindvíkinga lá talsvert á nýliðunum en vörn þeirra var þétt og Njarðvíkingar báru enga virðingu fyrir andstæðingunum. Það kom þó ekki í veg fyrir að Grindvíkingar skoruðu fleiri mörk en þau urðu alls sex þegar upp var staðið. Mörkunum skiptu þær jafnt sín á milli; Arianne Lynn Veland (61'), Viktoría Sól Sævarsdóttir (73'), Kara Petra Aradóttir (77') og Ragnheiður Tinna Hjaltalín (87').
Lið Njarðvíkur var skipað ungum og efnilegum stelpum úr unglingastarfi félagsins ásamt reyndari leikmönnum víða af Suðurnesjum sem hafa æft saman í vetur og var leikurinn eitt skref af mörgum hjá Njarðvík í uppbyggingu kvennaknattspyrnunar hjá félaginu og í Reykjanesbæ.
Víkurfréttir ræddu við Dagmar Þráinsdóttur, leikmann og þjálfara meistaraflokks Njarðvíkur, eftir leik og má sjá það í spilaranum hér að neðan en myndaveislu Jóhanns Páls Kristbjörnssonar, ljósmyndara Víkurfrétta, má sjá neðst á síðunni.