Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn síðan 1981
- Njarðvík komst upp í Inkasso deild karla í knattspyrnu
„Það er frábær tilfinning að verða meistari en Njarðvík hefur ekki unnið Íslandsmeistaratitil frá árinu 1981,“ sagði Rafn Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir að Njarðvíkingar gulltryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn síðastliðinn laugardag.
Njarðvík er komið í Inkasso-deildina í knattspyrnu karla en liðið er sem stendur í efsta sæti 2. deildar með 47 stig þegar einn leikur er eftir í deildinni. Næsta lið er átta stigum á eftir þeim í öðru sæti. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, afhenti Njarðvíkingum bikarinn í lok leiks Njarðvíkur og KV í ekta íslenskum aðstæðum, roki og rigningu.
Hverju eigið þið þennan árangur að þakka?
„Markmiðasetningin okkar var á hreinu frá upphafi. Við ætluðum að komast upp og þá var næst á dagskrá að setja saman góðan hóp og það hafðist. Kjarninn var til staðar frá því á síðustu leiktíð og mikið af sömu leikmönnunum. Við fengum líka góða styrkingu inn í liðið, allt hefur gengið upp og við endum á því að vera lang efstir í deildinni sem er frábært.“
Gekk allt upp í sumar?
„Við byrjuðum á því að gera tvö jafntefli en eftir það höfum við verið á góðu skriði. Núna erum við komnir með tólf leiki í röð án þess að tapa, það er nokkuð gott.“
Inkasso deildin er verulega sterk eins og við höfum séð í sumar. Hvernig ætlið þið að takast á við nýja verkefnið?
„Við höfum séð það síðustu ár að lið sem komast upp um deild hafa lent í veseni en við þurfum bara að vera klárir í það verkefni. Stemningin í hópnum okkar er mjög góð, liðið hefur beðið eftir því í mörg ár að komst upp og í ár tókst okkur það.“
Heldur þú að þú þurfir að styrkja hópinn eitthvað fyrir næsta sumar og kemur þú til með að þjálfa liðið á næsta ári?
„Já, við Snorri verðum áfram með liðið og munum vinna með þennan hóp. Ég býst ekki við öðru en að flestir verði áfram. Við þurfum kannski aðeins að bæta við þann hóp sem við erum með nú þegar og þá verðum við í toppmálum.“
Allt í kringum félagið fór á annað stig
Andri Fannar Freysson, fyrirliði Njarðvíkur, segir að þetta sé ansi skemmtilegt og góð tilfinning að hafa náð að komast upp í Inkasso-deildina.
Hvernig er sumarið búið að vera hjá ykkur?
„Allt í kringum félagið fór á annað stig og stemningin er búin að vera frábær, nema kannski fyrir utan nokkur skakkaföll í ferðalögum,“ sagði fyrirliðinn kátur.
Hvernig leggst Inkasso-deildin í þig?
„Ég hef spilað þarna einu sinni áður og það er stórt stökk að fara þangað en það verður bara meiri áskorun fyrir okkur að leggja harðar að okkur, fá kannski einhverja nýja inn og koma tilbúnir á næsta ári. Það er allavega mikil spenna í mannskapnum eftir sigurinn og vera komnir upp.“