Fyrsti fjórhjólaklúbbur landsins stofnaður á Suðurnesjum
Fyrsti fjórhjólaklúbbur landsins hefur verið stofnaður en sá ber heitið Fjórhjólaklúbbur Reykjaness. Klúbburinn er orðinn löglegur og kominn í fyrirtækjaskrá og nú þegar hafa 30 manns skráð sig í klúbbinn.
Davíð Jón Kristjánsson var kjörinn varaformaður klúbbsins á stofnfundinum og Eggert Sólberg Pálsson var kjörinn formaður. ,,Tilgangurinn með stofnun klúbbsins var að sameina áhugamenn um fjórhjól og viðtökurnar hafa ekki látið á sér standa,” sagði Davíð Jón en þegar hafa 30 manns skráð sig í klúbbinn. Til stendur hjá fjórhjólaklúbbnum að opna nýja heimasíðu en sem stendur er hægt að fylgjast með klúbbnum, og skrá sig í hann á www.blog.central.is/iceatv
Aðstaða fjórhjólaáhugamanna á Reykjanesi er nánast engin en Davíð Jón sagði að klúbburinn ætti í góðum samskiptum við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ og að lausn væri að vænta í aðstöðumálum á næstu vikum.
Mynd af www.blog.centra.is/iceatv