Fyrsti bikarúrslitaleikur Kristins og Sigmundar
Tveir af fremstu körfuknattleiksdómurum Íslands koma úr Reykjanesbæ og dæmdu þeir bikarúrslitaleik ÍR og Hamars/Selfoss sem fram fór um síðustu helgi. Þetta var í fyrsta sinn sem þeir Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson dæma saman bikarúrslitaleik því Suðurnesjaliðin hafa yfirleitt verið að keppa í þessum leikjum en Sigmundur dæmir fyrir Njarðvík og Kristinn fyrir Keflavík.
,,Þetta er í fyrsta sinn sem við dæmum saman í bikarúrslitum frá því við byrjuðum. Við höfum dæmt saman fleiri en 100 leiki en þetta var fyrsti bikarúrslitaleikurinn hjá okkur,” sagði Sigmundur í samtali við Víkurfréttir. ,,Við þekkjumst vel sem dómarar en svona stórleikur er alveg nýtt hjá okkur,” sagði Sigmundur sem var ánægður með hversu vel tókst til um bikarhelgina.
Mikil læti og góð stemmning var í Laugardalshöll en hvernig gengu tjáskiptin hjá dómurunum sín á milli og við leikmenn og þjálfara? ,,Þetta gekk mjög vel og þegar leikar hefjast þá blokkerst hávaðinn út hjá manni og þá er eins og allir geti talað vel saman,” sagði Sigmundur. ,,Dagurinn í heild var mjög vel heppnaður og kvennaleikurinn var ekki síður spennandi en karlaleikurinn,” sagði Sigmundur.
VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Sigmundur og Kristinn í Laugardalshöll að leik ÍR og Hamars/Selfoss loknum.