Fyrsta umferð Lengjubikarsins
Fyrstu leikir í Lengjubikarnum í fótbolta fóru fram um helgina þegar A deildum karla og kvenna var ýtt úr vör.
Karlalið Keflavíkur lék gegn Gróttu og fóru leikar 3:3. Keflavík leikur í riðli 2 í A deild.
Rúnar Þór Sigurgeirsson kom Keflavík yfir á 16. mínútu en Grótta svaraði með þremur mörkum áður en blásið var til hálfleiks. Rúnar Þór bætti öðru marki sínu við í seinni hálfleik (59') og Kian Williams tryggði jafntefli í uppbótartíma (90’+3).
Næsti leikur hjá Keflavík verður gegn Vestra í Reykjaneshöllinni næsta laugardag kl. 12:00.
Karlalið Grindavíkur tapaði fyrir HK 2:0 í A deild, riðli 1.
Næsti leikur þeirra verður gegn Val á Origo-vellinum næsta föstudag klukkan 19:00.
Reynir Sandgerði mætir Haukum á Ásvöllum á föstudaginn klukkan 18:30 í B deild, riðli 2.
Klukkan 16:00 á laugardag mæta Víðismenn KFC á Samsung-vellinum í B deild, riðli 2.
Þróttur Vogum hefur leik í B deild næsta laugardag þegar liðið mætir Elliða á Fylkisvellinum, leikurinn hefst klukkan 14:00.