Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 2. júní 2004 kl. 22:59

Fyrsta tapið staðreynd

Keflavík tapaði sínum fyrsta leik í sumar þegar liðið mátti lúta í lægra haldi gegn sprækum Fylkismönnum, 2-0, í Árbænum.

Björgólfur Takefusa kom heimamönnum yfir með laglegu marki á 20. mínútu. Finnur Kolbeinsson kom upp völlinn með boltann og sendi hann á Björgólf sem skaut góðu skoti rétt utan við vítateig sem hafnaði alveg út við stöng, óverjandi fyrir Ólaf Gottskálksson sem stóð aftur á milli stanganna hjá Keflavíkingum eftir alvarleg veikindi.

Björgólfur var aftur á ferðinni þremur mínútum síðar þegar hann fékk háan bolta inn á teiginn með Harald Guðmundsson í bakinu. Hann tók knöttinn á hnéð, sneri sér laglega og afgreiddi boltann laglega framhjá Ólafi.

Í fyrri hálfleik var Keflavíkurliðið ekki að sýna eins skemmtilegan bolta og þeir hafa verið að sýna að undanförnu og voru yfirspilaðir af Fylkismönnum. Í þeim seinni mátti sjá batamerki á Keflvíkingum, en Fylkir hélt út til leiksloka og tryggði sér þrjú mikilvæg stig í toppbaráttunni.

Haraldur Guðmundsson, miðvörður Keflvíkinga, sagði að tapið hafi verið sárt, en þannig væri það alltaf. „Þeir gjörsamlega böggluðu okkur saman í fyrri hálfleik og við vorum alveg á hælunum. Við spiluðum betur í seinni hálfleik, en náðum ekki að svara, það er alltaf erfitt að spila á Fylkisvellinum.“

Að leik loknum eru Fylkismenn í efsta sæti deildarinnar með 10 stig, en Keflavík í því þriðja með 7. Grindvíkingar eru í sjötta sæti með 5 stig.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024