Fyrsta tap Þróttara eftir að Hermann tók við
Þróttur lék á útivelli gegn Haukum úr Hafnarfirði í 2. deild karla á föstudag. Þróttarar höfðu ekki tapað leik síðan 3. júlí – þegar þeir mættu Haukum í fyrri umferð Íslandsmótsins.
Það voru Haukar sem skoruðu fyrst í leiknum (7') og bættu öðru marki við á 28. mínútu.
Þróttarar gáfust ekki upp og höfðu jafnað leikinn áður en flautað var til hálfleiks. Fyrra markið skoraði Alexander Helgason úr víti (35') og það seinna Júlíus Óli Stefánsson. Staðan 2:2 í leikhléi.
Í seinni hálfleik urðu Þróttarar fyrir því að missa mann út af þegar Andri braut á leikmanni Hauka sem var að sleppa í gegn, beint rautt (52') og Þróttur manni færri.
Leikar jöfnuðust tíu mínútum síðar en þá braut leikmaður Hauka af sér í tvígang á skömmum tíma og fékk einnig reisupassann (62').
Það voru svo Haukar sem kláruðu leikinn með marki á 81. mínútu. Lokatölur 3:2 fyrir Hauka.
Úr öðru sæti í það fjórða
Þróttur hefur verið á góðri siglingu í deildinni og þetta var fyrsti leikurinn sem tapast undir stjórn Hermanns Hreiðarssonar sem tók við liðinu snemma í júlí. Eins og fyrirfram var búist er 2. deildin mjög jöfn og lítið þarf til að breyta stöðunni í henni. Það munar ekki nema fimm stigum á efsta liðinu í deildinni, Kórdrengjum (sem eru með 27 stig), og Njarðvík sem er í sjötta sæti (22 stig), þá er Þróttur í fjórða sæti með 25 stig en liðið var í öðru sæti fyrir leikinn.