Fyrsta tap Keflvíkinga staðreynd
- Njarðvíkingurinn Óskar Örn með sigurmarkið í 0-1 sigri KR
Keflavík tapaði sínum fyrstu stigum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar KR-ingar sóttu sigur á Nettóvellinum í kvöld. Óskar Örn Hauksson skoraði sigurmark KR þegar skammt var til leiksloka en gestirnir úr Vesturbænum voru aðeins betri aðilinn í leiknum og sköpuðu sér fleiri færi. Þrátt fyrir það hefði jafntefli líklega verið sanngjörn úrslit. Keflvíkingar falla því úr toppsætinu að sinni en liðið er nú í þriðja sæti.
KR-ingar voru hressir í upphafi leiks og ógnuðu marki Keflvíkinga nokkrum sinnum á upphafsmínútunum. Keflvíkingar vöknuðu til lífsins og bæði Elías Már og Bojan áttu fín færi þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Elías átti afar gott færi og framherjinn ungi hefði líklega getað gert betur er skalli hans fór framhjá marki. Bæði lið reyndu að spila boltanum en oft vantaði örlítið upp á þegar kom að því að klára sóknirnar. Staðan var markalaus í hálfleik og vorbragurinn frægi kannski að gera vart við sig. Jonas Sandqvist hafði talsvert að gera í markinu hjá heimamönnum og átti Svíinn enn einn góðan leikinn.
Hörður Sveinsson byrjaði á bekknum eftir að hafa glímt við meiðsli að undanförnu. Hann kom inn fyrir Jóhann Birni þegar stundarfjórðungur lifði af leiknum. Hörður lét strax að sér kveða og reyndi á Stefán Loga í marki KR sem sá við framherjanum.
KR átti fleiri marktilraunir og voru gestirnir einnig meira með boltann en Keflvíkingar minntu reglulega á sig með hröðum sóknum. Fimm mínútum fyrir leikslok skall svo hurð nærri hælum þegar hinn sænski Sandqvist misreiknaði sig í fyrirgjöf og varnarmenn Keflavíkur þurftu að bjarga á marklínu. Það var svo skömmu síðar sem Njarðvíkingurinn Óskar Örn Hauksson skoraði með góðu vinstrifótarskoti í teignum. Óskar var búinn að vera sprækur í leiknum og eiga fjöldan af góðum spyrnum sem sköpuðu jafnan hættu við mark Keflvíkinga.
Keflvíkingar áttu tvö góð færi eftir mark Óskars sem kom á 89. mínútu en allt kom fyrir ekki, fyrsti ósigur Keflvíkinga í sumar er staðreynd.
Molar
Varnarmaðurinn Unnar Már Unnarsson kom inn í byrjunarlið Keflvíkinga í leiknum. Hann var að stíga sín fyrstu skref í efstu deild, 19 ára gamall.
KR átti 15 skot að marki en 7 þeirra reyndu á Sanqvist í marki Keflavíkur. Keflvíkingar áttu 9 skot en aðeins 2 þeirra rötuðu á rammann.
Lið Keflavíkur: Jonas Fredrik Sandqvist (M), Magnús Þórir Matthíasson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Unnar Már Unnarsson, Endre Ove Brenne, Sindri Snær Magnússon og Elías Már Ómarsson
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson (M), Andri Fannar Freysson, Hörður Sveinsson, Daníel Gylfason, Anton Freyr Hauksson, Frans Elvarsson og Ray Anthony Jónsson.
Sindri Snær Magnússon í baráttu við Gary Martin.
Bojan og Einar Orri berjast við Njarðvíkinginn Óskar Örn sem skoraði sigurmark leiksins í blálokin.