Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 30. mars 2002 kl. 18:03

Fyrsta tap Keflvíkinga á heimavelli í rúmt ár!

Grindvíkingar sigruðu Keflvíkinga í dag í Keflavík ,85:94, í 3. leik í undanúrslitum Epson-deildarinnar í körfuknattleik. Staðan í hálfleik var 41:47. Keflvíkingar leiða þó einvígið 2-1 en næsti leikur er í Grindavík. Þetta var fyrsti tapleikur Keflvíkinga á heimavelli á þessu tímabili og sá fyrsti síðan í febrúar 2001.Það var ljóst frá 1. mínútu að Grindvíkingar ætluðu sér að halda áfram í þessari keppni því þeir komu miklu ákveðnari til leiks og náðu strax góðu forskoti. Þeir voru að spila góða 3-2 svæðisvörn sem Keflvíkingar áttu fá svör við enda skoruðu þeir einungis 13 stig í 1. leikhluta en Grindvíkingar 21. Það sama var uppá teningnum í 2. leikhluta og voru heimamenn alltaf á hælum gestanna. Keflvíkingar réðu litið við Helga Jónas og Guðlaug sem settu hverja þriggjastiga körfuna ofan í á fætur annari. Staðan í hálfleik var 41:47.
Í seinni hálfleik komu heimamenn talsvert ákveðnari til leiks og eftir stuttan tíma voru þeir komnir yfir og það virtist líta út fyrir spennandi leik. Það varð þó ekki raunin því Grindvíkingar tóku sig saman í andlitinu og náðu strax 11 stiga forskoti. Staðan eftir 3. leikhluta var 63:73 og í 4. leikhluta héldu Grindvíkingar góðri forystu út leikinn þar sem heimamenn reyndu að klóra í bakkann en lítið gekk.
Helgi Jónas Guðfinnsson átti skínandi leik hjá Grindvíkingum og skoraði 26 stig. Tyson Petterson var einnig öflugur og skoraði 24 stig og gaf 9 stoðsendingar og svo virtist sem hann gæti labbað framhjá hverjum sem var í Keflavíkurliðinu. Guðlaugur Eyjólfsson var mjög góður í fyrri hálfleik þar sem hann setti niður fjóra þrista á stuttum tíma og svo má ekki gleyma Pétri Guðmundssyni sem barðist vel og skoraði 15 stig og tók 9 fráköst.
Það má segja að allir í liði Keflvíkinga hafi átt dapran leik nema Damon Johnson sem var bestur í liði heimamanna með 36 stig og 13 fráköst. Magnús Þór Gunnarsson og Guðjón Skúlason skoruðu sín 13 stigin hvor og Gunnar Einarsson var með 12 stig. Aðrir sýndu lítið sem ekkert í leiknum en Jón N. Hafsteinsson var þó ágætur í vörninni og tók 11 fráköst.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024