Fyrsta tap Keflvíkinga
Andlausir Keflvíkingar þurftu að sætta sig við tap gegn baráttuglöðum Breiðhyltingum
Í gærkvöldi mættust liðin tvö á Nettóvellinum við ágætis aðstæður. Bæði lið hafa sýnt að þau ætla sér að vera í toppbaráttu Lengjudeildarinnar í knattspyrnu í ár. Keflvíkingar voru stálheppnir að sleppa við að fá mark á sig þegar Leiknir átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur og skoruðu gott mark en það var dæmt af vegna rangstöðu, mjög vafasamur dómur hjá frekar slöppum dómara leiksins. Það var jafnræði á liðunum í fyrri hálfleik en Keflvíkingar voru fyrri til að koma boltanum í netið. Markið kom úr hornspyrnu á 35. mínútu og skráist á Nacho Heras sem náði að reka hausinn í boltann á leið sinni í mark Leiknismanna. Keflvíkingar yfir í hálfleik 1:0.
Leiknismenn mættu mun ákveðnari til seinni hálfleiks og nánast tóku völdin á vellinum þó Keflavík ætti sínar rispur af og til. Eitthvað varð þó undan að láta og á 55. mínútu náði Leiknir góðri sókn sem endaði með jöfnunarmarki. Fimm mínútum síðar náðu Leiknismenn annari sókn sem endaði með marki og kom þeim í 2:1, bæði mörkin virtust of auðveld og vörn Keflvíkinga hefði átt að gera betur. Sama má segja um sóknartilburði Keflvíkinga, þeir voru bitlausir og liðið getur gert talsvert betur. Undir lok leiks tóku heimamenn við sér og reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en þá var orðið of seint. Reyndar átti markmaður Leiknismanna góðar vörslur og sá til þess að þeir lönduðu verðskulduðum sigri í bítlabænum.
Joey Gibbs var valinn maður leiksins og verður það að teljast sanngjarnt en hann stóð upp úr á frekar slöppum degi Keflvíkinga, hann vann vel og átti jafnvel að fá dæmda vítaspyrnu þegar stutt var eftir. Með tapinu detta Keflvíkingar niður í fimmta sæti deildarinnar á meðan Leiknir skýst upp fyrir þá í fjórða sæti.