Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsta tap Keflavíkur í körfunni í vetur
Guðmundur Jónsson var góður í liði Keflavíkur og skoraði 22 stig. VF-myndir/PállOrri.
Mánudagur 18. nóvember 2013 kl. 21:34

Fyrsta tap Keflavíkur í körfunni í vetur

Ekki nóg að leika vel gegn KR hálfan leikinn. Þeir röndóttu miklu betri í síðari hálfleik og uppskáru sanngjarnan sigur.

„Við hættum að spila kerfin okkar eins og við höfðum gert í fyrri hálfleik og hættum að leika eins og lið. Þannig varð leikur okkar of einstaklingsbundinn. Þá vorum við líka slakir í vörninni og því fór sem fór,“ sagði Keflvíkingurinn Valur Orri Valsson en bítlabæjardrengirnir máttu þola sitt fyrsta tap í vetur gegn mjög sterku liði KR í TM höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 70-81.

Keflvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu allan tímann, reyndar ekki nema með 3 stigum eftir fyrsta fjórðung og fimm stigum í hálfleik, 39-36. Tæplega helming stiga Keflavíkur skoraði Michael Craion en hann var með stórleik, 16 stig og 9 fráköst.

Þeir röndóttu úr vesturbænum sýndu strax í upphafi síðari hálfleiks að þeir ætluðu að selja sig dýrt. Þeir voru mun ákveðnari í öllum aðgerðum, hertu sig svakalega í vörn og hittu síðan vel í sókninni. Þeir náðu góðri sóknarsyrpu í byrjun þriðja leikhluta þar sem Martin Hermannsson og Darri Hilmarsson fóru mikinn sem og Brynjar Björn Björnsson. Þessir kappar reyndust Keflvíkingum erfiðir og þegar flautað var til fjórða leikhluta voru Vesturbæingar með sex stiga forskot. Þrátt fyrir skammarræðu Andy Johnston þar sem sjá mátti nokkur hár fjúka dugði það skammt. Guðmundur Jónsson virtist vera sá eini sem gat skorað en Craion var ekki í sama formi og í fyrri hálfleik í sókninni. KR náði mest 14 stiga forskoti en lokatölur urðu 70-81.

Guðmundur Jónsson var bestur heimamanna og Craion var bestur á vellinum í fyrri hálfleik en var ekki nærri því eins öflugur í síðari hálfleik. Kappinn gerði tvennu sjöunda leikinn í röð og hefur verið frábær í haust. En það sem vantaði hjá Keflavík í þessum leik var framlag frá fleiri leikmönnum, sérstaklega í sókninni þar sem vandræðin voru mest hjá heimamönnum í síðari hálfleik.

KR-ingar léku mjög sterka vörn í síðari hálfleik og voru beittari í sóknaraðgerðum sínum sem skilaði þeim góðum sigri á heitu Keflavíkurliði. Það eru margir mjög flinkir körfuboltamenn í Vesturbæjarliðinu sem einnig státar af meiri hæð en Keflavíkurliðið og ljóst að þeir röndóttu verða í sjóðheitir í vetur. Sex leikmenn skoruðu tíu stig eða meira hjá KR og var Ermolinski ekki í þeim hópi. Þetta sýnir vel breidd KR og engin tilviljun að liðið hefur ekki tapað leik.
En eins og alltaf má ekki gleyma því að mótið er rétt að byrja og sumir segja segja að mótið hefjist ekki fyrr en í úrslitakeppni.

Keflavík-KR 70-81 (19-15, 20-21, 17-26, 14-19)
 
Keflavík: Guðmundur Jónsson 22/8 fráköst, Michael Craion 22/14 fráköst, Darrel Keith Lewis 11, Arnar Freyr Jónsson 7/5 fráköst, Valur Orri Valsson 5, Þröstur Leó Jóhannsson 3/4 fráköst, Andri Daníelsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Gunnar Ólafsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Ólafur Geir Jónsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.
 
KR: Darri Hilmarsson 19, Martin Hermannsson 16/5 fráköst/5 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 13, Helgi Már Magnússon 11/12 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 10/5 fráköst/3 varin skot, Terry Leake Jr. 10, Pavel Ermolinskij 2/11 fráköst, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Ólafur Már Ægisson 0, Kormákur Arthursson 0, Jón Orri Kristjánsson 0, Hugi Hólm Guðbjörnsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreidarsson, Leifur S. Garðarsson.
 
 
Valur Orri í baráttu við einn besta KR-inginn, Martin Hermansson.
 
Mickael Craion var mjög öflugur í liði Keflavíkur, með tvöfalda tvennu sjöunda leikinn í röð.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024