Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fyrsta mótið í nýju lauginni
Þriðjudagur 23. maí 2006 kl. 16:25

Fyrsta mótið í nýju lauginni

Fyrsta sundmótið í nýju 50 metra innilauginni var haldið sl. laugardag. Það var Sparisjóðsmót Sunddeildar Keflavíkur sem er haldið ár hvert fyrir yngri flokkana, sveina- og meyjaflokk, hnokka- og hnátuflokk og svo flokk barna fæddra 1998 og síðar. Nýju sundlauginni er auðveldlega hægt að skipta í tvær 25 metra laugar og kepptu krakkarnir á sex brautum í 25 metra laug.

Starfsfólk sundmiðstöðvarinnar hefur setið námskeið undanfarna daga því í nýju lauginni er mjög fullkominn tímatökubúnaður. Sundmótið gekk mjög vel fyrir sig og aðstandendur þess segja stoltir frá því að mótinu hafi einungis seinkað um 2 mínútur.
Það lofar góðu fyrir framhaldið því deildin mun halda fleiri mót á komandi mánuðum. Þar ber hæst Aldursflokkameistaramót Íslands sem fer fram dagana 22. – 25. júní. Það er eitt stærsta sundmót ársins og sunddeildirnar þurfa að hyggja að mörgu til að það gangi snuðrulaust fyrir sig.

Í fyrra sigraði ÍRB stigakeppni mótsins með yfirburðum þegar það var haldið á Akureyri og vonandi gengur jafn vel á heimavelli í nýrri og glæsilegri laug. Fjölmargir ungir sundmenn náðu lágmörkum fyrir AMÍ á Sparisjóðsmótinu og það verður væntanlega mikið fjör á bökkunum í nýju lauginni í lok júní.

Myndir: Frá Sparisjóðsmótinu

 

 

 

 

 

 

 



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024