Fyrsta mark Ölmu Rósar í efstu deild
Keflavík tapaði fyrir FH í gær í Bestu deild kvenna í knattspyrnu og fyrir vikið komust FH-ingar upp fyrir Keflvíkinga á stigatöflunni.
Leikurinn fór illa af stað fyrir Keflavík en FH-ingar voru algerlega einráðar á vellinum fyrstu mínúturnar og komust mjög fljótt í tveggja marka forystu (4' og 8').
FH hefði með réttu átt að ná meira forskoti því þær sóttu hart að marki Keflvíkinga og áttu m.a. tvö sláarskot á fyrsta korterinu. Keflvíkingar náðu þó að vinna sig inn í leikinn og staðan var 2:0 í hálfleik.
Alma Rós Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir Keflavík með góðu skoti, stöngin inn (58'). Fyrsta mark þessarar bráðefnilegu stúlku í efstu deild kvenna en þess má geta að Alma er aðeins fimmtán ára gömul.
Nokkrum mínútum eftir mark Keflvíkinga voru þær nærri því að jafna leikinn þegar Caroline Van Slambrouck sendi boltann fyrir markið, Linli Tu náði skoti en markvörður FH varði á línu.
Keflvíkingar komust ekki nær því að jafna leikinn og FH gerði út um hann með þriðja marki sínu í uppbótartím (90'+1).
Keflavík datt úr sjötta sæti niður í það níunda en FH, ÍBV og Selfoss unnu sína leiki og fóru með sigrum sínum upp fyrir Keflvíkinga.