Fyrrum fyrirliði Keflvíkinga í viðtali við FIFA.COM
Natasha Anasi, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins og fyrrum fyrirliði Keflavíkur, er í áhugaverðu og stórskemmtilegu viðtali á vef Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA). Í viðtalinu er talað um hvernig hafi staðið á því að Anasi, efnilegur leikmaður yngri landsliða Bandaríkjanna, hafi endað á að spila með liði á lítilli eyju á Íslandi (ÍBV).
Natasha segir það hafa verið mikil viðbrigði að flytja frá Texas, einu heitasta ríki Bandaríkjanna, til Íslands. „Landslagið og veðurfarið hér gæti ekki verið ólíkara því sem er í Texas, þar sem allt er flatt og alltaf heitt,“ útskýrir Anasi í viðtalinu. „En ég kom hingað með það í huga að víkka sjóndeildarhringinn og njóta tímans. Ég var líka heppin að félagið sem ég gekk til liðs við var eins og stór fjölskylda og tók vel á móti mér – svo ég var fljót að aðlagast og fór að njóta mín frá upphafi.“
Nathasha hefur sannarlega skotið rótum á Íslandi en hún er gift Rúnari Inga Erlingssyni, þjálfara kvennaliðs Njarðvíkur og ríkjandi Íslandsmeistara í körfuknattleik. Saman eiga þau eina dóttur og þá á Rúnar einnig son af fyrra sambandi, svo það er óhætt að segja að Natasha sé orðin hluti af íslensku vísitölufjölskyldunni.
Hún segist hafa sótt um íslenskt ríkisfang af fjölskylduástæðum, ekki til að geta spilað með landsliðinu. „Ég sótti ekki um með það að markmiði að spila með íslenska landsliðinu – fjölskylduástæður réðu því, að komast hjá því að vera stöðugt að endurnýja landvistarleyfið – en það var ótrúlegur bónus sem fylgdi í kjölfarið,“ segir Natasha og á þá við tækifærið að fá að leika fyrir Íslands hönd.
Nathasha er spurð hvort það hafi ekki verið erfið ákvörðun að leika með íslenska landsliðinu í ljósi ferils hennar með yngri landsliðum Bandaríkjanna.
Hún svarar að eitt augnablik hafi skotið upp kollinum hugsunin „ætla ég virkilega að gera þetta?“ en á sama tíma hafi hún ekki hikað. „Ég hef skotið rótum hér og mér líður eins og ég sé Íslendingur,“ segir hún. „Ég hef lært tungumálið og liðsfélagar mínir hrósa mér stöðugt fyrir hve góðu valdi ég hafi náð á því – og ég elska að þær allar tala við mig á íslensku. Jafnvel þó ég lendi stundum í vandræðum með réttu orðin þá hjálpa þær mér – þær skipta aldrei yfir í ensku. Þær hafa tekið mér sem Íslendingi frá fyrstu mínútu.“
Viðtalið má lesa hér í heild sinni á vef FIFA (á ensku).