Furðu auðveldur sigur Grindvíkinga
Sigur Grindvíkinga á Haukum í Intersport-deildinni í gær var öruggur og sannfærandi og sýndu þeir gulu einn af sínum bestu leikjum í vetur.
Nýi Kaninn misssti af flugi og komst því ekki tillandsins en Grindvíkingar létu það ekki á sig fá. Eftir jafnan fyrsta fjórðung var staðan 20-21 fyrir Hauka og allt útlit fyrir spennandi leik. Góður kafli fyrir hálfleik tryggði heimamönnum þó 11 stiga forskot, 45-34, þegar liðin héldu inn í klefann.
Darrel Lewis og Guðlaugur Eyjólfsson voru drjúgir í hálfleiknum og skorðuðu 14 stig hvor.
Grindvíkingar mættu svo sannarlega tilbúnir til leiksins í seinni hálfleik og völtuðu yfir dapra Haukana. Munurinn jókst stig af stigi í þriðja leikhluta og var orðinn 25 stig þegar komið var í síðasta fjórðung. Grindvíkingar gátu leyft sér þann munað að taka því rólega og Haukarnir minnkuðu muninn eilítið án þess þó að ógna forskotinu verulega. Lokatölur voru 102-82 og var Kristinn Friðriksson, þjálfari Grindvíkinga að vonum sáttur í leikslok.
„Ég er sérlega ánægður með varnarleikinn hjá okkur, en þegar okkur líður vel saman í vörninni kemur sóknin að sjálfu sér. Nýi Kaninn komst ekki fyrir leikinn, en við þurfum ekki aukamannskap til að spila vel,“ sagði Kristinn og bætti því við að hann hefði átt von á Haukunum mun sterkari.
VF-myndir/Þorgils Jónsson