Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frjálst fall Grindvíkinga eftir brotthvarf Pálínu
Sunnudagur 26. janúar 2014 kl. 12:34

Frjálst fall Grindvíkinga eftir brotthvarf Pálínu

- Jón Halldór Eðvaldsson segir tímabilið hafa verið erfitt í Grindavík

Töluverðar væntingar voru gerðar til þess að Grindvíkingar myndu blanda sér í toppbaráttuna í Domino’s deild kvenna í körfubolta þetta tímabil. Liðið styrktist mikið með komu leikmanna eins og Ingibjargar Jakobsdóttur, Pálínu Gunnlaugsdóttur og Maríu Ben Erlingsdóttur. Hinn sigursæli þjálfari Jón Halldór Eðvaldsson var fenginn til þess að stýra liðinu sem sigraði 1. deildina í fyrra. Meiðsli og vandræði með erlenda leikmenn hafa hins vegar sett stórt strik í reikninginn.

„Þetta er búið að vera erfitt tímabil. Það er mikið álag á nokkrum einstaklingum þar sem leikið er þétt. Það þarf að passa upp á að halda öllum ferskum. Það hefur ekki gengið eins vel og maður hafði vonað,“ sagði Jón Halldór þjálfari Grindvíkinga í samtali við blaðamann Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikmenn sem áttu að bera liðið uppi

Tveir sterkustu leikmenn liðsins, Pálína Gunnlaugsdóttir og Petrúnella Skúladóttir hafa verið frá að mestu þetta tímabil. Petrúnella er barnshafandi og hefur ekkert leikið og Pálína hefur verið meidd síðan í lok nóvember. Síðan hún meiddist hafa Grindvíkingar fallið úr fjórða sæti deildarinnar í það sjöunda og næstsíðasta. Af þeim átta leikjum í deildinni sem Pálína hefur misst af hafa sjö tapast, auk eins leiks í bikarnum. „Þetta er bara eins og þú myndir taka tvo bestu leikmennina úr hvaða liði sem er á landinu, landsliðsmenn sem eru í byrjunarliði. Þetta er erfitt þegar þú missir tvo leikmenn sem áttu í raun að bera þetta ið uppi,“ segir þjálfarinn.

Erfitt að skipta um erlanda leikmenn

Það er óhætt að segja að Grindvíkingar hafi ekki verið heppnir með erlenda leikmenn þessa leiktíðina, en um áramót var Lauren Oosdyke látin fara frá liðinu og Bianca Lutley mætti til leiks. Sú síðarnefnda hefur ekki alveg staðið undir væntingum og samkvæmt heimildum Víkurfrétta þykir líklegt að hún verði látin fara innan skamms. „Það versta sem getur gerst, fyrir utan að missa þína bestu leikmenn í meiðsli, er að skipta um erlendan leikmann. Það fer mikill tími í að kenna þeim inn á leik liðsins og fá þá til þess að treysta þjálfaranum og liðsfélögum sínum.“ Jón segist hins vegar hafa verið sáttur við Oosdyke en eftir að Pálína meiddist þurfti hann öðruvísi leikmann. Hópurinn er þunnskipaður hjá þeim gulklæddu um þessar mundir og hefur Jón aðeins getað nýtt níu leikmenn að undanförnu, þar með talda hina 13 ára Hrund Skúladóttur. „Það eru ungar stelpur þarna sem eru óvanar að leika margar mínútur í efstu deild og það tekur tíma að öðlast reynslu.“

Ekki vanar að axla ábyrgð

Pálína hefur verið að æfa með liðinu að undanförnu en engu að síður í endurhæfingu vegna hnémeiðsla. Hún var í búningi gegn KR í bikarnum á dögunum en Jón ákvað að nota hana ekki í leiknum. Ef litið er á tölfræðina, og þá staðreynd að aðeins hafi komið tvö stig í hús hjá Grindvíkingum frá því að Pálína meiðist, þá er ekki óeðlilegt að tengja slæma gengið við fjarveru hennar. „Hún er auðvitað besti leikmaðurinn á Íslandi, hefur verið kjörin það undanfarin tvö ár. Þegar þú ert með þunnan hóp og missir besta leikmanninn þinn út þá getur það vegið ansi þungt. Það er hins vegar þannig að eins manns dauði er annars brauð. Ég hef alltaf sagt það að þegar einhver dettur út þá verða aðrir leikmenn að stíga upp. Vandamálið sem við höfum verið að glíma við er að þessar stelpur eru ekki vanar að taka á sig ábyrgð. Allt frá yngri flokkum hefur það verið þannig. Ef þú tekur yngri flokkana í Keflavík sem dæmi, þá er búið að kenna þessum krökkum frá 7-8 ára aldri að vera sigurvegarar. Þær í Grindavík hafa alla burði til þess að axla ábyrgð en það tekur tíma að kenna þetta.“

Á undirbúningstímabilinu áttu Grindvíkingar hreinlega í erfiðleikum með að smala í lið á æfingar. Fjölmargir leikmenn sem höfðu verið með í fyrra ákváðu að halda ekki áfram af ýmsum ástæðum. „Þetta var nýtt fyrir mér að vera með lið þar sem það eru vandræði með að fá mannskap á æfingar. Ég vinn því bara úr því sem ég er með, það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr þessu.“ Jón segir að sjálfsögðu sér stefnt á fjórða sætið aftur og þar með í úrslitakeppni. „Það er líf og fjör í þessu. Við leggjumst ekkert í jörðina og förum að gráta, við höldum bara áfram. Ef allt gengur upp þá náum við fjórða sætinu, þá byrjar líka nýtt mót,“ segir þjálfarinn að lokum.