Friðrik og Einar stýra Njarðvíkingum næstu þrjú árin
Stjórn körfuknattleiksdeildar UMFN hefur samið við Einar Árna Jóhannsson og Friðrik Pétur Ragnarsson um að stýra karlaliði Njarðvíkinga næstu þrjú leiktímabil. Umfn.is greinir frá í morgun.
Einar og Friðrik tóku við Njarðvíkingum á síðari hluta nýafstaðinnar leiktíðar og fóru í sumarfrí eftir 2-0 ósigur gegn KR í 8-liða úrslitum Iceland Express deildarinnar.
Þeir félagar eiga þónokkur ár að baki í þjálfun meistaraflokksins en Friðrik stýrði liðinu á árunum 2000 til 2004 og Einar Árni svo frá 2004 til 2007. Í millitíðinni hefur Friðrik svo stýrt Grindvíkingum og Einar Árni liði Breiðabliks auk þess sem þeir hafa báðir þjálfað yngri flokka hjá UMFN undanfarin misseri.
Vinna við leikmannamál liðsins stendur yfir en þegar er ljóst að þeir Friðrik Erlendur Stefánsson og Páll Kristinsson eru hættir og því gríðarleg reynsla sem hverfur úr herbúðum liðsins. Ljóst er að ungir leikmenn úr drengja- og unglingaflokki félagsins munu stíga inn í meistaraflokkshópinn og er það yfirlýst stefna félagsins að vinna með þann efnivið sem þegar er til staðar í félaginu, en bæði drengjaflokkur og unglingaflokkur urðu Íslandsmeistararar fyrr í mánuðinum.
www.umfn.is