Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Friðrik: Kæran peppar okkur bara upp
Mánudagur 14. apríl 2008 kl. 11:52

Friðrik: Kæran peppar okkur bara upp

Grindavík og Snæfell mætast í sínum fjórða undanúrslitaleik í Stykkishólmi kl. 20:00 í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en staðan í einvíginu er 2-1 Snæfell í vil og dugir þeim sigur í kvöld til að senda Grindavík í sumarfrí. Liðin mættust síðasta laugardag í Röstinni þar sem Grindavík hafði stórsigur 90-71.

 
Með sigri í kvöld geta Grindvíkingar jafnað það met sem Keflavík setti í gærkvöldi er þeir jöfnuðu fyrstir liða einvígi eftir að hafa lent 2-0 undir.
 
Grindvíkingar virðast ekki par sáttir við þá kæru sem Snæfellingar lögðu fram á hendur Jamaal Williams eftir þriðja leikinn. Þá tóku Williams og Hlynur Bæringsson miðherji Snæfells netta gólfglímu með þeim afleiðingum að Williams fékk réttilega tæknivillu en Snæfellingar vildu meina að framganga Williams hefði verið einum of röskleg og kærðu framferði hans eftir leik. Að því er fram kemur á heimasíðu Grindavíkur var kærunni umsvifalaust vísað frá af hálfu KKÍ þar sem dómarar dæmdu strax í málinu með því að gefa Williams tæknivillu.
 
Eins og sést á skrifum á heimasíðu Grindavíkur eru gulir fjarri því sáttir og sagði Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga að kæran væri veikleikamerki. ,,Þetta var furðuleg ákvörðun. Ef ég hefði verið hinum megin við borðið hefði ég aldrei tekið í mál ákvörðun stjórnar að leggja inn kæru. Þetta var í besta falli hallærislegt og verið að reyna að veikja okkur til þess að komast áfram inn í úrslitin,” sagði Friðrik í samtali við Víkurfréttir.
 
,,Ég er búinn að skoða þetta atvik nokkrum sinnum og leikmaðurinn (Williams) sagði við mig að hann hefði lagt niður hendina til að lenda ekki ofan á Hlyn. Svo krækir líka Hlynur löppinni í Williams og þeir falla í gólfið. Ég held að Hlynur hafi gert eins mikið úr þessu og mögulegt var. Annars eiga menn ekki að staldra við svona og kæra heldur halda áfram og hafa gaman af lífinu, þetta bull peppar okkur bara upp og hjálpar,” sagði Friðrik og ljóst að Grindvíkingar eru ekki sáttir við þessar aðfarir Hólmara.
 
,,Það er pottþétt að dýrvitlausir Grindvíkingar mæta til leiks í kvöld og við mætum til að berjast aftur fyrir lífi okkar. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum toppleik til að vinna þetta,” sagði Friðrik.
 
Engum dylst það að mikill hiti er kominn í rimmu Grindavíkur og Snæfells. Lítil sem engin ást er á millum þeirra Williams og Hlyns í teignum og svo verður væntanlega ekki þegar þeir hittast fyrir á blokkinni í kvöld.
 
Igor Beljanski meiddist á ökkla í síðasta leik og er alls óvíst í hvaða mynd hann getur verið með í kvöld sem og framherjinn ungi Davíð Páll Hermannsson en hann hefur einnig verið að glíma við meiðsli. Þá er Jóhann Ólafsson frá út þessa leiktíð þar sem hann sleit krossbönd á dögunum.
 
VF-Mynd/ [email protected]Atvikið umdeilda á laugardag. Snæfellingar kærðu meint hálstak og framferði Williams en dómarar leiksins gáfu honum tæknivíti og þar við sat og KKÍ mun ekki að hafast frekar í málinu. Grindvíkingar líta á þetta sem aðför að liðinu og segja að kæran sé aðeins liður í peppinu fyrir leik kvöldsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024