Friðrik Ingi er ekki hættur í þjálfun - tekur við Þór í Þorlákshöfn
Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Þórs, Þorlákshöfn í körfubolta og skrifaði hann undir þriggja ára samning við félagið. Friðrik Ingi á að baki langan feril sem þjálfari og hefur þjálfað í Njarðvík, KR, Grindavík og Keflavík og lyft Íslandsmeistaratitlinum þrisvar. Einnig hefur hann þjálfað yngri landslið og A landslið Íslands.
„Það er óhætt að segja að það sé mikil tilhlökkun í mér að fara að vinna með öllu því góða fólki sem starfar í kringum körfuboltann í Þorlákshöfn sem og bæjarbúum öllum, körfuboltinn er auðvitað að mörgu leyti ákveðið sameiningartákn bæjarfélagsins.“ sagði Friðrik Ingi í samtali við Hafnarfréttir.
„Ég komst að því á síðasta tímabili að það voru líklegast mistök að gefa það út að ég væri hættur, það er ekki svo auðvelt þegar á reynir og það hitti mig svo sannarlega fyrir og hér er ég staddur, á leiðinni út á gólf að gera það sem ég elska að gera, þjálfa og kenna körfubolta, gera leikmenn betri, innan sem utan vallar.“