Friðarhlaupið á Suðurnesjum
Á föstudag lagði alþjóðlegur hópur hlaupara upp í þriggja vikna ferð sína með logandi friðarkyndil umhverfis Ísland og var opnunarathöfnin í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Tilgangurinn er að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli.
Hlaupararnir voru staddir í Reykjanesbæ á föstudag og heimsóttu 6. og 5. flokk karla hjá Knattspyrnudeild Njarðvíkur og Sport- og ævintýraskóla UMFN. Lagt var af stað frá íþróttahúsinu í Njarðvík og hljóp hópurinn saman upp á túnið ofan við Holtaskóla þar sem gróðursett var friðartré. Hópurinn hljóp einnig með krökkum úr Garði, Sandgerði og Grindavík og alls staðar var friðartré plantað í bæjarfélögunum.
Friðarhlaupið (World Harmony Run) er alþjóðlegt kyndilboðhlaup. Hlaupið er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931-2007) sem m.a. opnaði íslenska Friðarhlaupið árið 1989. Tilgangur hlaupsins er að efla frið, vináttu og skilning. Friðarhlaupið hóf göngu sína árið 1987 og hefur nú verið hlaupið í rúmlega 100 löndum síðustu 26 árin.
Það er alþjóðlegt lið sjálfboðaliða sem skipuleggur og sér um að hlaupa með kyndilinn á milli landa. Fólk á öllum aldri og af öllum stéttum og stigum tekur þátt í Friðarhlaupinu hvar sem það stingur niður fæti.
Í ár verður hlaupið hringinn í kringum Ísland dagana 20. júní .-12. júlí.
Njarðvíkingar sendu okkur þessar myndir. Fleiri í myndasafni VF.
-