FREYR YNGRI FLOKKA ÞJÁLFARI ÁRSINS
Freyr Sverrisson sem starfað hefur við knattspyrnuþjálfun hjá Ungmennafélagi Njarðvíkur var kjörinn yngri flokka þjálfari ársins á Íslandi. Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands stendur fyrir kjörinu og afhenti Bjarni Stefán Konráðsson, fráfarandi formaður félagsins og nýráðinn yngri flokkaþjálfari Keflavíkur, Frey, bikar af þessu tilefni í sérstöku hófi af þessu tilefni sl. sunnudag. Freyr hefur verið í fullu starfi við knattspyrnuþjálfun hjá UMFN síðan 1995. Um þessar mundir eru 160 strákar að æfa knattspyrnu hjá félaginu en voru rúmlega þrjátíu þegar hann byrjaði. Á síðasta ári voru Njarðvíkingar með prúðasta liðið á Shell mótinu í Eyjum og Esso mótinu á Akureyri en Freyr segist hafa lagt mikla áherslu á aga og framkomu frá því hann hóf þjálfun í Njarðvík. Mikil ánægja hefur verið með störf Freys hjá UMFN og hefur hróður hans sem þjálfara borist út fyrir gömlu bæjarmörkin og svo hátt að strákar úr Keflavík hafa gengið yfir til Njarðvíkinga. „Þetta er sama bæjarfélagið og öllum er frjálst að velja í hvaða félagi þeir vilja vera“, sagði Freyr sem sjálfur er uppalinn í Keflavík og lék með félaginu í yngri flokkum sem og í 1. deild á sínum tíma.