Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 11. febrúar 1999 kl. 23:46

FREYR ÞJÁLFARI ÁRSINS 1998

"Ég byrjaði að þjálfa hjá K.F.K í kringum 1980, þá sautján ára gamall.""Þjálfaði ég jöfnum höndum yngri flokka stúlkna sem stráka í knattspyrnu og handbolta hjá Keflavík milli 1980 og 1990 ásamt því að leika í meistaraflokki með Keflavík, Reyni Sandgerði, Grindavík og Njarðvík. Aðstæður breyttust hjá mér 1991 er ég tók að mér þjálfun meistaraflokks Hattar á Egilsstöðum en þar var ég einnig 1992. Að þessum tíma loknum tók ég ákvörðun að hætta að leika sjálfur og sumarið 1993 var ég liðstjóri meistaraflokks Keflavíkur ásamt því að þjálfa 2. flokk félagsins. 1994 þjálfaði ég meistarflokk Njarðvíkur og tók sama ár að mér alla þjálfun yngri flokka félagsins og er þar enn. Þetta er orðinn langur ferill og er ég nú að upplifa það að þjálfa börn þeirra sem ég þjálfaði áður.” Hver var staða knattspyrnunnar í Njarðvík þá? ,,Þegar ég tók við héldu Njarðvíkingar úti tveimur flokkum, 6. og 7. flokki, en í þeim voru u.þ.b. 30 piltar auk þess sem teflt var fram einhverri sundrungu í öðrum flokkum. Á starfstíma mínum hér í Njarðvík hef ég átt afar gott samstarf við stjórn deildarinnar, formann hennar sérstaklega, og foreldra. Í raun er knattspyrnudeild samansett af þjálfara, stjórn deildar og foreldrum barnanna sem knattspyrnuna stunda. Árangur þessarar samvinnu er að í dag sendir Njarðvík lið til keppni í Íslandsmóti í öllum yngri flokkum og tökum við þátt í öllum helstu mótum sem í boði eru. Að auki er farið erlendis með 4. flokk annað hvert ár. Nú eru elstu piltarnir sem ég tók við að stíga fyrstu skrefin í meistaraflokki félagsins.” Hefur lokið öllum þjálfarastigum Knattspyrnusambandsins? Ertu sjálfmenntaður eða þarf einhverja formlega menntun til að gerast þjálfari? ,,Það geta allir orðið sjálfmenntaðir þjálfarar með áhugann einn að vopni en ég hef lokið A, B, C, D og E-stigi þjálfaramenntunar Knattspyrnusambands Íslands. E-stiginu, sem telst lokastig K.S.Í, lauk ég í Þýskalandi 1995 og gerði lokaverkefni um fæði íþróttamanna í samvinnu við Helga Arnarsson þáverandi þjálfara meistaraflokks Njarðvíkur.” Hverjar eru áherslur þjálfarans Freys Sverrissonar? ,,Viðhorf og áherslur hafa breyst með tímanum. Barna- og ungmennaþjálfun er uppbyggingar- og forvarnarstarf og heilbrigði, agi og kurteisi jafn mikilvæg í boltanum. Knattspyrnuþjálfunin sjálf er orðin miklu tæknilegri og markvissari en þegar ég hóf störf og þátttaka foreldra í framfaraferlinu hefur jafnframt aukist mikið.” Einn sígarettupakki á viku Nú heyrir maður oft háværar kvartanir foreldra vegna mikils kostnaðar vegna íþróttaiðkunnar barnanna, hvert er þitt sjónarhorn á æfingagjöldin? ,,Ég get náttúrulega aðeins skoðað málið út frá eigin forsendum. Hjá Knattspyrnudeild Njarðvíkur eru æfingagjöld 14 ára og yngri kr. 15.500 á ári. Fyrir þetta eru börnin að fá u.þ.b. 140-150 klst. á ári í æfingatímum sem jafngildir vinnu í u.þ.b.18 vikur frá kl. 08-17. Þá er ekki taldir þeir tímar sem fara í æfingaleiki eða mót. Þetta gerir ca. kr. 300 á viku en það er minna en einn sígarettupakki á viku eða ein bjórkippa á mánuði. Við vitum að lífið er ekki bara knattspyrna og hef ég haldið opið hús, bingó, farið í hjólreiða-, veiði- og eggjatýnsluferðir með börnunum.” Breytingar á nýrri öld Bæjaryfirvöld verða að skoða málefni íþróttadeildanna varðandi einsetningu skólana. Knattspyrnudeild Njarðvíkur tók upp morgunæfingar fyrir þremur árum og nú eru 60% æfinga okkar fyrir kl. 16:00 á virkum dögum. Einsetningin kemur því til með að hafa mikil áhrif á skipulag æfinga. Þá hlýtur að koma að því að Keflavík og Njarðvík hefji raunverulegt, markvisst samstarf í knattspyrnumálum sem báðir aðilar hafa ávinning af. Þá velti ég því fyrir mér hvenær bæjaryfirvöld stíga skrefið til fulls og greiða laun yngri flokka þjálfara. Það myndi lækka æfingagjöld og skila sér auknum fjölda iðkenda. Stöðuleiki í þjálfaramálum er nauðsynlegur og mikilvægt að hafa þjálfara í fullu starfi. Þjálfari sem þekkir vel til heimilisaðstæðna og fleiri þátta er verðmætari en einhver sem stekkur inn í starfið rétt yfir sumartímann.” Alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast Sérðu sjálfan þig eftir 20 ár enn að þjálfa börn Reykjanesnesbæinga í knattspyrnu? ,,Já, alveg eins. Þetta er lífsstarf mitt í dag en ég er ekki eilífðarráðinn hjá Njarðvík. Mér hafa borist tilboð um störf annars staðar en reynslan segir mér að grasið sé ekkert nauðsynlega grænna hinum megin. Að umgangast börn á hverjum degi er bæði þroskandi og skemmtilegt og alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast. Fyrir u.þ.b. 5 árum síðan var ég t.a.m. með byrjendahóp (5-6 ára) að keppa gegn Reynismönnum og lentum við undir í hálfleik 0-2. Í hálfleik heyrði ég guttana tala um að þetta væri bara eðlilegt, Reynismenn væru með miklu betri þjálfara. Einu sinni var ég með 4. flokk að leika gegn Hellissandi sem voru með bæði stráka og stelpur í liðinu. Þá komumst við í 3-0 í fyrri hálfleik en hægri kantmaðurinn hjá mér hafði leikið gegn stúlku í bakvarðastöðunni hjá Hellissandsbúum og hreinlega ekkert sýnt af viti svo ég gekk á hann í hálfleik og spurði hvað væri eiginlega að. Pilturinn horfði stóreygur á mig og útskýrði svo vandamálið fyrir mér ,,Hún er bara svo sæt” sagði hann og þar við sat. Ég átti engin ráð sem dugðu gegn slíkri vörn” sagði Freyr Sverrisson að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024