Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frekar auðveldur sigur í Ljónagryfjunni
Chaz Williams fer hér framhjá leikmanni Hattar en Williams gerði 24 stig í leiknum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 20. október 2023 kl. 23:58

Frekar auðveldur sigur í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með Hött frá Egilsstöðum í þriðju umferð Subway-deildar karla í körfuknattleik. Þótt gestirnir hafi brugðið á það ráð að spila mjög fast létu heimamenn hart mæta hörðu og þeim aldrei inn í leikinn. Að lokum lönduðu Njarðvíkingar 36 stiga sigri (107:71).

Njarðvík - Höttur 107:71

Hattarmenn fengu slæma útreið í fyrsta leikhluta en þá náðu Njarðvíkingar strax sautján stiga forskoti (32:15) og staðan gestanna átti bara eftir að versna. Annar leikhluti var öllu jafnari en heimamenn fóru með tuttugu stig í farteskinu inn í hálfleikinn (58:38).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimamenn héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta, juku forskotið og nokkuð ljóst að stefndi í stórsigur, 24 stiga munur á liðunum fyrir síðast fjórðung (81:57). Ungu leikmennirnir fengu að spreyta sig í síðasta leikhluta og það breytti litlu fyrir gang mála, Njarðvík fór með stórsigur af hólmi og eru ósigraðir í fyrstu þremur umferðum deildarinnar.

Elías Pálsson átti stórgóðan leik og setti m.a. niður fjóra þrista.

Chaz Wiliams var stigahæstur heimamanna með 24 stig og þá átti Elías Pálsson flottan leik með nítján stig og setti niður fjóra þrista. Domynikas Milka var með sextán stig og þeir Maciej Baginski og Carlos Novas Mateo sextán stig hvor. Þá var Mario Matasovic með þrettán og Luke Moyer sjö stig.

Domynikas Milka lætur engan vaða yfir sig.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni þar sem hann tók meðfylgjandi myndir og ræddi við þá Benedikt Guðmundsson og Elías Pálsson eftir leik.

Njarðvík - Höttur (107:71) | Subway-deild karla 20. október 2023