Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Framtíðin björt í grindvískri knattspyrnu
Anton Ingi stýrir Grindavík í bikarsigri á Njarðvík. VF/JPK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 6. maí 2023 kl. 06:31

Framtíðin björt í grindvískri knattspyrnu

„Yfirþjálfarinn þarf að leggja línuna, á svo að kíkja á æfingar allra flokka og sjá til þess að hlutirnir séu gerðir samkvæmt þeirri stefnu sem búið er að marka,“ segir Anton Ingi Rúnarsson sem tók við yfirþjálfarastöðu knattspyrnudeildar UMFG fyrir þetta tímabil.

Anton byrjaði mjög ungur að þjálfa. „Ég var rúmlega tíu ára gamall þegar ég réði mig sem aðstoðarþjálfara hjá Garðari Vignis, með sjöunda flokk drengja ef ég man rétt. Þá strax fann ég að þetta ætti vel við mig. Ég æfði auðvitað fótbolta upp alla yngri flokka og þjálfaði í leiðinni, var svo á fyrsta ári í meistaraflokki hjá Óla Stefáni Flóvents en tognaði illa aftan í læri. Því fór það sumar eiginlega í vaskinn og ég fann að löngunin í að verða leikmaður var ekki nægjanlega mikil svo ég einfaldlega setti skóna upp í hillu og hef einbeitt mér að þjálfun síðan. Við Grindvíkingar höfum staðið mjög vel að allri þjálfun yngri flokka myndi ég segja og sumir þjálfaranna okkar eru með þeim bestu sem fyrirfinnast, t.d. Janko og Cober er mjög fær. Í raun gæti ég talið upp alla þjálfarana, þau eru öll mjög fær. Svo er líka barna- og unglingaboltinn tvískiptur, þau yngri leika á hálfum velli með átta leikmenn inn á, svo færast þau yfir á stóran völl í fjórða flokki og eru þá ellefu. Þetta er tvennt algerlega ólíkt og sumir þjálfaranna eru einfaldlega betri á hálfum velli, að kenna grunntækni og annað slíkt, t.d. Pálmar Guðmunds er einn sá færasti í að kenna grunntæknina. Aðrir eru síðan betri á stórum velli en þá er leikfræði orðin stærri partur af jöfnunni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Anton sótti um yfirþjálfarastöðuna – og fékk hana

Anton sýndi stöðunni strax áhuga. „Alli [Alfreð Jóhannsson] og Jón Óli [Daníelsson] skiptu stöðunni má segja á milli sín í fyrra. Alli var með drengina, Jón Óli með stelpurnar en þeir voru sömuleiðis að þjálfa meistaraflokkana. Stjórn knattspyrnudeildar ákvað að gera breytingar á þjálfun þeirra og þar með var ljóst að þeir myndu sömuleiðis hætta í unglingastarfinu, staðan var auglýst og ég sótti um. Faglegt og flott ferli hjá stjórninni og ég þurfti einfaldlega að selja þeim mínar hugmyndir og sem betur fer var mér sýnt traustið, ég ætla mér að standa mig í þessari nýju og spennandi stöðu.

Þetta hefur verið lærdómsríkur fyrsti vetur en það er ekki auðvelt að manna þjálfarastöður á venjulegum vinnutíma því svona unglingaþjálfarastarf getur held ég aldrei orðið meira en aukavinna fyrir viðkomandi. Börnin eru búin í skóla um tvöleytið og fara þá beint á æfingu í Hópið en hinn venjulegi launþegi á ekki auðvelt með að koma sér frá vinnu akkúrat á þeim tíma. Því hef ég þurft að taka að mér ansi mikla þjálfun en um leið og skólinn er búinn og hægt er að hafa æfingar barnanna seinni partinn, auk þess sem þjálfarinn er í sumarfríi úr aðalvinnunni sinni, verður mun auðveldara að manna þjálfunina. Þetta fyrsta ár mitt hefur því farið að miklu leyti í skipulagsvinnu og markmiðið er að, þegar næsta undirbúningstímabil hefst, verði búið að manna alla flokka. Ég vil sjá mitt starf þannig að ég geti einbeitt mér að yfirsýninni, að ég kíki á æfingar allra flokkanna, fylgist með hvernig þjálfunin fer fram og sé til taks þegar upp koma veikindi eða forföll hjá viðkomandi þjálfara. Það gengur ekki að mínu mati að yfirþjálfarinn sé með flokk eða flokka í 100% þjálfun,“ segir Anton.

Anton í æfingaleik með kvennaliði Grindavíkur.

Ekki anda ofan í hálsmál

Anton vill tengja flokkana betur saman. „Jón Óli innleiddi flotta þjálfarahandbók þegar hann kom til baka fyrir tveimur árum. Það er gott að styðjast við handbókina, án þess að hún sé heilagt rit. Þetta snýst um að viðkomandi barn sé búið að öðlast ákveðna tækni þegar gengið er upp úr viðkomandi flokki. Mín sýn á þetta er að hver þjálfari hafi sinn aðstoðarþjálfara – og sá aðstoðarþjálfari sé aðalþjálfari flokksins fyrir neðan, þannig tengjast þriðji og fjórði flokkur t.d. saman. Aðstoðarþjálfarinn getur sagt aðalþjálfara þriðja flokksins, að það sé mikið efni í fjórða flokki sem vert sé að gefa gaum, og hugsanlega láta æfa upp fyrir sig. Svona verður alltaf til gott og heilbrigt samtal og meiri líkur á hlutirnir gangi vel fyrir sig. Annað sem ég vill líka innleiða, að sami þjálfari sé að þjálfa sjöunda flokk drengja og stúlkna svo dæmi sé tekið, svo kynin fái nákvæmlega sömu þjálfun. Svo er það undir viðkomandi barni, hversu mikið hann eða hún vill leggja á sig. Ég tek sem dæmi, leikskilningur stráka er venjulega betri því þeir horfa svo mikið á fótbolta, sérstaklega þann enska. Stelpur hafa ekki sama áhuga en leikskilningur kemur mikið í gegnum svona áhuga.

Mitt starf er síðan ekki að vera andandi ofan í hálsmálið á viðkomandi þjálfara og segja honum eða henni, hvernig eigi að þjálfa sendingar t.d. Þjálfarinn verður að fá að fara sínar eigin leiðir líka en allir þurfa auðvitað að fylgja heildarstefnu félagsins. Það er mikil umræða um símanotkun og ég vil ekki sjá þjálfarana mína vera í símanum á æfingu, sama hvort verið sé að taka tíma í hlaupaæfingum eða hvað, við eigum skeiðklukkur sem ég vil láta nota til þess. Það lítur illa út ef foreldrar eru að koma að fylgjast með æfingum, að þjálfarinn sé „í símanum“, hugsanlega er hann ekki að spila Candy Crush heldur að taka tíma en það fyrsta sem foreldrinu dettur í hug að viðkomandi þjálfari hafi bara verið á Facebook. Ég vil sjá fagmennsku í öllu því sem við gerum.“

Anton og Jón Óli.

Afreksleikmenn

Grindavík hefur alið af sér nokkra atvinnumenn í gegnum tíðina, Anton vill sjá fleiri leikmenn komast í hóp afreksleikmanna. „Að sjálfsögðu vil ég ala upp frábæra leikmenn í Grindavík, sem bæði nýtast meistaraflokknum og komist helst til útlanda til að spila sem atvinnumenn – og séu þá líklegir landsliðsmenn. Við höfum nokkur dæmi um slíkt en nærtækustu dæmin núna eru Ingibjörg Sigurðardóttir sem leikur í Svíþjóð og Daníel Leó Grétarsson sem leikur í Póllandi. Bæði eru þau landsliðsfólk Íslands og frábærar fyrirmyndir fyrir okkar ungu iðkendur. Ég myndi segja að það sé mikill efniviður fyrir hendi hjá báðum kynjum en 2008 árgangurinn strákamegin varð t.d. Íslandsmeistari í fimmta flokki fyrir þremur árum. Þar eru margir mjög spennandi leikmenn og verður spennandi að sjá þá í sumar. Ég þekki vel til ungu, efnilegu stelpnanna þar sem ég er þjálfari kvennaliðsins. Við höfum tekið nokkrar stelpur inn í meistaraflokkinn og þær öðlast mikilvæga reynslu. Þriðji flokkur kvenna lék til úrslita á Rey Cup í fyrra í keppni A-liða svo ég held að mér sé alveg óhætt að halda því fram að framtíð grindvískrar knattspyrnu er björt,“ sagði Anton Ingi að lokum.