Framherjinn Eve Braslis semur við Grindavík
Grindavík hefur samið við framherjann Eve Braslis um að leika með félaginu í vetur í Subway-deild kvenna í körfubolta. Eve er 23 ára gömul og kemur frá Ástralíu. Hún hefur leikið með Pepperdine og Utah Valley háskólunum í Bandaríkjunum og var á mála hjá ástralska félaginu Geelong LS þar sem hún skoraði að meðaltali sextán stig í leik í áströlsku úrvalsdeildinni.
„Eve er alhliða leikmaður sem við vorum að leita af. Hún er samkvæmt fyrri þjálfurum mikil liðsmaður sem leggur mikið á sig,“ segir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Eve er 186 cm á hæð og mun því færa Grindavíkurliðinu hæð inn í teig. Hún er væntanleg til landsins í byrjun september.
Grindavík hefur verið að styrkja lið sitt fyrir komandi tímabil. Nú þegar er Ólöf Rún Óladóttir komin aftur til Grindavíkur og einnig hefur verið samið við Charisse Fairley. Danielle Rodriguez verður einnig áfram hjá félaginu á næsta tímabili, segir á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar UMFG.