Frábært afrek grindvískra hlaupara
Þrír Íslendingar tóku þátt í 100 mílna (160 km) utanvegahlaupinu Ultima Frontera 160 sem fram fór á Spáni um helgina. Þetta voru Grindvíkingarnir Christine Buchholz og Anna Sigríður Sigurjónsdóttir og svo þjálfari þeirra Daníel Smári Guðmundsson.
Christine lauk keppni á 23 klst. og 28 mínútum og varð í 3. sæti í kvennaflokki sem er aldeilis glæsilegur árangur. Anna Sigríður þurfti því miður að hætta keppni eftir „litla" 80 km vegna þess að þrálát hnémeiðsli létu á sér kræla. Daníel Smári lauk keppni á 20 klst. og 57 mínútum og endaði í 12. sæti yfir heildina.
Þetta utanvegahlaup á Spáni er mikil þolraun fyrir þessa ofurhlaupara því oft er hlaupið við afar erfiðar aðstæður í fjöllum og víðar.
Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.