Frábær vörn skóp sigurinn
Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik í 13. sinn eftir sigur í Borgarnesi í gær 60-81. Njarðvík vann því einvígið gegn Skallagrím 3-1 og eru vel að Íslandsmeistaratitlinum komnir. Brenton Birmingham var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar en hann gerði 22 stig í leiknum í gær og tók 13 fráköst.
Það var Egill Jónasson sem opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en Jovan Zdravevski svaraði um hæl 2-3. Þannig var staðan fyrstu fimm mínútur leiksins og nokkur taugatitringur í báðum liðum frammi fyrir troðfullu Fjósinu í Borgarnesi. Njarðvíkingar urðu fyrri til að brjóta ísinn og breyttu stöðunni snögglega í 5-15 sér í vil. Heimamenn komust loks í gang og minnkuðu muninn í 16-20 en þegar 0,6 sekúndur voru eftir af 1. leikhluta áttu Njarðvíkingar innkast undir körfu Skallagríms. Boltinn barst til Jeb Ivey sem náði viðstöðulausu skoti og ofan í fór boltinn og Njarðvíkingar fögnuðu þessari körfu vel. Staðan því 16-23 að loknum 1. leikhluta.
Pálmi Sævarsson setti niður þriggja stiga körfu í upphafi 2. leikhluta og minnkaði muninn í 19-23. Þegar rétt rúmlega 4 mínútur voru til loka 2. leikhluta var staðan 27-29 fyrir Njarðvík sem reyndust sterkari á lokaspretti fyrri hálfleiks og höfðu yfir 29-38 í hálfleik.
Njarðvíkingar hófu seinni hálfleik með látum og gerðu út um leikinn á skömmum tíma, Friðrik Stefánsson gerði fyrstu körfu seinni hálfleiks með glæsilegri troðslu og í kjölfarið fylgdi 0-14 kafli hjá Njarðvíkingum. Staðan 29-52 þegar George Byrd gerði fyrstu körfu Borgnesinga þegar 4:30 mínútur voru liðnar af 3. leikhluta. Njarðvíkingar voru hvergi nærri hættir og þegar 3. leikhluta var lokið var staðan 40-64 Njarðvík í vil og sigurinn í höfn.
Munurinn hélst í kringum 20 stigin í 4. leikhluta og sama hvað Borgnesingar reyndu þá tókst þeim ekki að saxa á forskotið. Lokatölur leiksins voru 60-81 Njarðvík í vil eins og áður greinir en það var Jeb Ivey sem var stigahæstur Njarðvíkinga með 30 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Skallagrím var George Byrd stigahæstur með 20 stig, 14 fráköst og 5 varin skot.
Fyrirliðarnir Halldór Karlsson og Friðrik Stefánsson hófu Íslandsmeistarabikarinn á loft við mikinn fögnuð sem hélt áfram í Stapa við heimkomuna til Njarðvíkur.
Tölfræði leiksins
Video: Íslandsmeistarar koma til Njarðvíkur
Video: Einar Árni Jóhannsson, þjálfari, kampakátur
Video: Rúnar Erlingsson og Hjörtur Einarsson
Video: Erlingur Hannesson, stuðningsmaður UMFN
Video: Brenton Birmingham
Vinsamlega athugið að stór myndasöfn og myndskeið frá leiknum eru væntanleg á vefinn síðar í dag