Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær Keflavíkursigur á KR – Grindavík vann FSu
Mánudagur 15. mars 2010 kl. 21:53

Frábær Keflavíkursigur á KR – Grindavík vann FSu

Keflvíkingar sýndu ótrúlegan karakter þegar þeir sigruðu efsta liðið í Iceland Express deildinni í körfubolta, KR, í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur urðu 92-100 eftir að KR hafði verið 17 stigum yfir í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsti leikhluti var jafn en KR stakk af í öðrum leikhluta og komst mest í 19 stig en leiddi sem fyrr segir með 17 stigum í hálfleik. Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur sagði í beinni útsendingu á Stöð 2 sport í hálfleik að Keflavík kæmi sem nýtt lið inn í seinni hálfleikinn. Miðað við frammistöðuna í öðrum leikhlutanum áttu ekki margir von á því að Guðjón stæði við orð sín. Það var fátt sem benti til þess. En körfubolti er skrýtin íþrótt þar sem stemmningin sem myndast í liðunum getur unnið leiki. Það gerðist í kvöld. Gunnar Einars kveikti í neistanum í upphafi síðari hálfleiks og félagar hans fylgdu því eftir með frábærum körfubolta. Þar fóru útlendingarnir Burns og hinn hávaxni og krullhærði Igbavboa hamförum og leiknum stýrði Hörður Axel Vilhjálmsson eins og herforingi. Sigurður G. Þorsteinsson kom mjög sterkur inn og gerði margar góðar körfu sem og að vera sterkur í vörninni. Tuttugu og sjö stiga sveifla varð í leiknum og Keflvíkingar héldu áfram í fjórða leikhluta og bættu við forskotið.


KR ingar voru slegnir út af laginu en þjörmuðu aðeins að Keflvíkingum undir lokin en ekki nógu sannfærandi. Þeir sem á horfðu og héldu með Keflavík voru sannfærðir um að þeirra menn myndu klára dæmið. Það gerðu þeir þó svo að munurinn yrði ekki 15 stig sem þurfti til að setja KR upp að vegg í lokaumferðinni, heldur aðeins 8, eða þannig. Þeir unnu seinni hálfleik með 25 stigum gegn efsta liði deildarinnar.

Lokatölur 92-100, og einn mesti karaktersigur hjá Keflvíkingum í langan tíma. KR-ingar lentu nú í svipuðum sporum og Stjarnan gegn þeim í síðustu umferð þegar þeir unnu upp tuttugu stiga forskot á nokkrum mínútum.

Burns (29 stig), Igbavboa (25) sem átti sinn besta leik sinn með Keflavík og Hörður (20) skoruðu 74 af 100 stigum Keflavíkur, Sigurður var með 14 og Gunnar 9, Þröstur 3.

Grindvíkingar unnu léttan sigur á FSu í Grindavík í kvöld. Þar urðu lokatölur 106-66. Páll Axel Vilbergsson skoraði mest hjá heimamönnum eða 28 stig. Yfirburðir þeirra voru miklir eins og tölurnar sýna.


VF-mynd: Draelon Burns skoraði 29 stig gegn KR í kvöld.