Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Frábær Keflavíkursigur á Eyjamönnum
Fögnuður Keflvíkingar var mikill í leikslok. VF-myndir/Páll Orri.
Sunnudagur 22. september 2013 kl. 19:46

Frábær Keflavíkursigur á Eyjamönnum

Gulltryggði áframhaldandi veru í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Keflvíkingar frískir gegn Eyjamönnum á Nettó-vellinum.

Keflvíkingar unnu sætan sigur á Eyjamönnum 4-2 í næstu síðustu umferð Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu á Nettó-vellinum í Keflavík í dag. Sigurinn gulltryggði veru liðsins í efstu deild næsta sumar.

Eftir tíðindalausan fyrri hálfleik kom aldursforseti heimamanna, Jóhann Birnir Guðmundsson Keflavík á bragðið með skemmtilegu marki. Jóhann tók aukaspyrnu á vinstri kantinum alveg við vítateigslínu og skaut föstu skoti sem markvörður Eyjamanna náði ekki að verja og missti hann inn í markið.

Einar Orri Einarsson sem gárungarnir hafa gefið millinafnið „Winne“ eftir þekktum kappa, skoraði á 66. mínútu glæsilegt skallamark eftir frábæra aukaspyrnu frá Jóhanni Birni en boltinn rataði beint á kollinn á Einari sem hamraði hann í netið, 2-0. „Jói sagði mér bara að vera tilbúinn á fjær stönginni. Hann teiknaði hann algerlega þangað og ég var þar,“ sagði Einar eftir leikinn.

Eftir annað markið misstu heimamenn aðeins taktinn og Eyjamenn komust meira inn í leikinn en Keflavík hafði algera stjórn á leiknum í upphafi seinni hálfleiks. Aaron Spear minnkaði muninn á 72. mín. með glæsilegu langskoti. Eyjamen voru aftur á ferðinni aðeins fjórum mínútum síðar þegar þeir skoruðu mark eftir hornspyrnu, staðan allt í einu orðin 2-2.

Keflvíkingar vöknuðu við vondan draum og tók aftur völdin á vellinum. Það endaði með góðu marki á 86. mín. sem Elías Már Ómarsson átti stóran þátt í. Hann átti gott skot að marki inn í teig en Hörður Sveinsson hirti frákast markvarðarins og skoraði 3-2. Elías átti mjög skemmtilega innkomu og þessi ungi kappi er án efa einn af framtíðar stjörnuleikmönnum Keflavíkur.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Bojan Stefán Ljúbicic virkilega flott mark. Hann brunaði upp vinstri kantinn, hristi einhverja varnarmenn af sér og renndi boltanum framhjá markverði Eyjamanna, 4-2. „Ég var búinn að bíða lengi eftir marki í sumar og það kom í síðasta leik. Það hjálpaði sjálfstraustinu og því var gaman að fylgja því eftir með þessu marki,“ sagði kappinn ungi sem er sonur Zorans Ljubicic, fyrrverandi þjálfara Keflavíkur sem var látinn taka pokann sinn fyrr í sumar. Við birtum ítarlegra viðtal við Bojan hér á vf.is þar sem hann svarar því m.a. hvernig honum hafi liðið þegar föður hans var sagt upp og hvernig það hafi verið að vera í liðinu undir hans stjórn.

Með sigrinum í dag eru Keflvíkingar í 7. sæti með 24 stig. Síðasti leikur umferðarinnar verður gegn Blikum á útivelli um næstu helgi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elías Ómarsson á skot að marki sem markvörðurinn ver en nær ekki að halda boltanum...

... markahrókurinn Hörður Sveinsson náði boltanum og skaut honum í markið og kom Keflavík yfir 3-2.

Bojan Stefán Ljubicic brunaði upp vinstri kantinn með Eyjamenn á hælunum..

Renndi boltanum snyrtilega framhjá markverðinum...

... og gulltryggði sigur Keflavíkur 4-2.

Már Gunnarsson, hinn ungi en eitilharði stuðningsmaður Keflavíkur fagnaði með Bojan og Keflvíkingunum frábærum úrslitum. VF-myndir/Páll Orri Pálsson.