Frábær bikarleikur endaði með Haukasigri
Íslandsmeistarar Hauka tryggðu sér í dag sæti í úrslitaleik Lýsingarbikars kvenna í körfuknattleik með 75-78 sigri á Grindavíkurkonum. Leikurinn var fjörugur og spennandi allt frá upphafi til enda en það voru Haukar sem reyndust sterkari á endasprettinum þegar þær náðu tveimur mikilvægum sóknarfráköstum í röð.
Ifeoma Okonkwo opnaði leikinn fyrir Hauka með þriggja stiga körfu og innan skamms var staðan orðin 0-12 Haukum í vil en þá tók Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé og las sínum leikmönnum pistilinn. Með áræðni tókst Grindavík að minnka muninn í 10-14 en þá sigu Haukar á ný fram úr í 12-20 en fínn lokasprettur Grindavíkur í upphafsleikhlutanum minnkaði muninn í 15-20.
Haukar náðu að hægja á Grindavík með pressuvörn sinni og stundum skilaði hún nokkrum boltum en Grindvíkingar leystu oft vel úr pressunni og uppskáru góðar og snöggar körfur. Haukar voru skrefinu á undan en Jovana Stefánsdóttir minnkaði muninn í 27-30 með þriggja stiga körfu og svo í fyrsta sinn í langan tíma komst Grindavík yfir 33-32 þegar tæpar tvær mínútur voru til hálfleiks. Enn og aftur sigu Haukar fram úr en Tamara Bowie minnkaði muninn í 36-38 með þriggja stiga körfu og það var svo Jovana Stefánsdóttir sem jafnaði metin í 38-38 þegar liðin héldu til hálfleiks.
Í upphafi þriðja leikhluta fékk Pálína Gunnlaugsdóttir sína þriðju villu og lék lítið í leikhlutanum eftir það. Þrátt fyrir langa fjarveru Pálínu byggðu Haukar að nýju upp þægilegt forskot og kom Ifeoma Okonkwo Haukum í 48-57 með þriggja stiga körfu en staðan að loknum þriðja leikhluta var 53-63 Haukum í vil.
Pálína var ekki lengi í paradís í fjórða leikhluta þar sem hún fékk strax í upphafi leikhlutans sína fjórðu villu og þá datt smá broddur úr Haukavörninni. Við það hófst góður kafli hjá Grindavík og var það Ingibjörg Jakobsdóttir hjá Grindavík sem jafnaði leikinn í 67-67 með þriggja stiga körfu þegar rétt rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þegar um tvær mínútur voru til leiksloka fékk Petrúnella Skúladóttir sína fimmtu villu og varð frá að hverfa en hún hafði haft góðar gætur á Helenu Sverrisdóttur fram til þessa.
Hildur Sigurðardóttir kom Grindavík í 75-73 en það sem gerðist næst voru alger klaufamistök í herbúðum Grindavíkur og glæsileg barátta af hálfu Hauka. Helena Sverrisdóttir dró Haukavagninn áfram og þegar 13 sekúndur voru til leiksloka voru Haukar komnir yfir 75-76. Haukar brenndu af vítaskoti en náðu frákastinu eftir skotið og þar var illa stigið út af hálfu Grindavíkur. Því urðu heimakonur að brjóta af sér og Haukar komust í 75-78 á vítalínunni og tíminn of naumur fyrir Grindavík til þess að jafna og Haukar fögnuðu því sigri.
Helena Sverrisdóttir gerði 23 stig og tók 11 fráköst fyrir Hauka en í Grindavíkurliðinu var Tamara Bowie með 28 stig og 15 fráköst. Ingibjörg Jakobsdóttir átti einnig fínan dag hjá Grindavík og gerði hún 11 stig í leiknum og þar af þrjár mjög mikilvægar þriggja stiga körfur. Næst Helenu hjá Haukum var Ifeoma Okonkwo með 22 stig og 16 fráköst.
Það verða því Haukakonur sem leika til úrslita í Lýsingarbikarnum og þær mæta annað hvort Keflavík eða Hamri í Laugardalshöll þann 17. febrúar næstkomandi.