Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 29. ágúst 2002 kl. 09:47

Frábær árangur piltasveitar GS

Íslandsmót pilta og stúlkna í sveitakeppni var haldið helgina 16-18 ágúst á Vífilsstaðavelli Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Piltasveit Golfklúbbs Suðurnesja varð Íslandsmeistari eftir frábæran leik þar sem þeir fóru hamförum í öðrum hluta mótsins.

Leikið var í flokki pilta 16-18 ára og flokki stúlkna 12-18 ára og sendi GS frá sér lið í báðum flokkum. Alls tóku átta sveitir þátt í mótinu í flokki pilta en fimm í flokki stúlkna. Keppnin hjá strákunum var mjög hörð en hún skiptist í tvo hluta, 18 holu höggleik og holukeppni þar sem leiknar voru fjórar umferðir.
Lið GS, skipað þeim Atla Elíassyni, Elmari Geir Jónssyni, Gunnari Ásgeirssyni, Rúnari Óla Einarssyni og Torfa Gíslasyni, varð í 2. sæti í höggleiknum, tveimur höggum á eftir sveit GR. Í holukeppninni sigraði sveit GS alla fjóra keppinauta sína 2-1 en þess má geta að síðasta viðureignin var hreinn úrslitaleikur um titilinn þar sem GS spilaði frábært golf og tryggði sér þar með um leið sigur.

Stúlknasveit GS sem var skipuð þeim Heiðu Guðnadóttur, Rakel Guðnadóttur, Heiðrúnu Rós Þórðardóttur, Sonju Kjartansdóttur og Ingu Sig Ingimundardóttur gekk ekki alveg jafn vel og lenti í 5. sæti.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024