Frábær árangur Nes á Íslandsmótinu í boccia
Íþróttafólk úr Nes, íþróttafélagi fatlaðra á Suðurnesjum, náði frábærum árangri á Íslandsmótinu í boccia sem fór fram á Sauðárkróki um síðustu helgi.
16 keppendur úr 37 manna hópi Nesara komust í úrslit í sínum flokki. Í rennuflokki var það Ástvaldur Ragnar Bjarnason, í 6. deild Dóra Dís Hjartardóttir og Jósef Pétursson, í 5. deild Guðmundur Ingi Einarsson, í 4. deild Bryndís Brynjólfsdóttir og Gestur Þorsteinsson og í 3. deild voru það Ásmundur Þórhallsson, Davíð Már Guðmundsson, Óskar Ívarsson og Ragnar Ólafsson sem komust í úrslit. Það gerðu einnig Helgi Sæmundsson, Konráð Ragnarsson, Róbert Aron Ólafs og Sigurður Benediktsson sem voru í 2. deild og Arnar Már Ingibjörnsson og Sigríður Karen Ásgeirsdóttir í 1. deild. Allir keppendur sem komast í úrslit í keppninni færast upp um deild á næsta ári.
Af þeim Nesurum sem komust í úrslit fóru 5 á verðlaunapall. Í 2. deild varð Helgi Sæmundsson í fyrsta sæti og er Íslandsmeistari. Á eftir honum í 2. sæti var Konráð Ragnarsson og fékk hann silfurverðlaunin. Í 3. deild fékk Davíð Már Guðmundsson silfrið og í 3. sæti var Ragnar Ólafsson. Í 5. deild varð Guðmundur Ingi Einarsson í 2. sæti og fékk silfurverðlaun.
Með í ferðinni voru foreldrar og aðstoðarmenn yngri nemenda og 7 nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem aðstoðuðu þjálfarana með hópinn bæði í keppni og utan keppni. Er þetta hluti af námi þeirra við FS en þeir eru ásamt fjölda annarra FS nemenda að læra þjálfun fatlaðra hjá Nes undir stjórn Önnu Leu Björnsdóttur íþróttakennara í FS. Þessi aðkoma nemenda FS er ómetanleg fyrir Nes og starf þess.
Mynd 1: Hópurinn fyrir utan rútuna á Sauðárkróki.
Mynd 2: Verðlaunahafar Nes ásamt þjálfurum. Í miðið er Helgi Sæmundsson, Íslandsmeistari í 2. deild með sigurlaunin.