Frábær árangur Lífsstíls í Þrekmeistaranum
Liðsmenn líkamsræktarstöðvarinnar Lífsstíls í Reykjanesbæ komu, sáu og sigruðu á Bikarmóti Þrekmeistarans sem fór fram á Akureyri um helgina.
Liðsmenn stöðvarinnar hrósuðu sigri í einstaklingsflokkum karla og kvenna auk þess sem lið frá stöðinni voru í 1. og 2. sæti í liðakeppni kvenna. Þá var karlalið stöðvarinnar í öðru sæti keppninnar.
Kristjana Hildur Gunnarsdóttir, sem hefur borið höfuð og herðar yfir keppinauta sína í kvennaflokki undanfarin misseri, gerði enn betur í þetta skiptið því hún sló eigið Íslandsmet og lauk brautinni á 16 mín 29,13 sek, sem er bæting um rúmlega mínútu frá eldra metinu og vann með yfrburðum.
Vikar Sigurjónsson varð bikarmeistari í karlaflokki á tímanum 17 mín 6,25 sek eftir æsilega keppni og „5 fræknar“, sem hafa oft áður náð góðum árangri, vann yfirburðasigur í liðakeppni kvenna á tímanum 13:57:59. Í öðru sæti voru „Stelpurnar“, einnig frá Lífsstíl á tímanum 16:05:25.
Þá var karlaliðið „Lífsstíll BEST í heimi“ í öðru sæti í liðakeppni karla á tímanum 14:36:67.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá þessu spræka Suðurnesjafólki sem hefur sumt jafnvel látið að sér kveða utan landssteinana.
Mynd: Kristjana og Vikar með sigurlaunin. Tekið af www.fitness.is. Þar má einnig finna heildarúrslit í mótinu.