Frábær árangur hjá Lífstílsfólki í EAS þrekmótaröðinni
Fjórða og lokamótið á EAS þrekmótaröðinni fór fram um helgina meðfram keppni í Lífstílsmeistaranum. Keppt var í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Lífsstílsiðkendur voru á meðal þátttakenda og gekk þeim mjög vel. Hátt í 400 keppendur tóku þátt í mótinu sem heppnaðist mjög vel.
Í opnum flokki kvenna varð Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í 2. sæti og Hrefna Sig Svavarsdóttir í 3. sæti. Kristjana H. Gunnarsdóttir sigraði í einstaklingsflokki 39+ og Vikar Karl Sigurjónsson sigraði í flokki 39+ í einstaklingskeppni karla.
Ragnheiður Sara og Andri urðu í 1. sæti í parakeppni. Kristjana og Vikar Karl urðu í 1. sæti í 39+ parakeppni og Þurý og Doddi í 3. sæti í sama flokki. Liðið 5 fræknar+ sem skipað var af Þurý, Ástu, Kötu, Árdísi, Elsu og Kiddý sigraði hópakeppni 39+. Liðið LSS sem skipað var af Baddý, Helenu Ósk, Guðnýju, Söru og Ásdísi Þorgils. varð í 2.sæti í opnum flokki.
Haldin var uppskeruhátíð að keppni lokinni þar sem útnefndir voru hraustustu einstaklingar ársins 2012. Þar er tekið mið af samanlögðum árangri úr fjórum mótum. Kristjana H. Gunnarsdóttir hlaut titilinn „Hraustasta kona landsins 39+ árið 2012“. Aðeins munaði einu stigi að Ragnheiður Sara hefði hlotið titilinn „Hraustasta kona landsins“ en hún hafnaði í 2. sæti. Lífsstílsfólk var í efstu þremur sætunum í flestum flokkum.
Þetta má því teljast frábær árangur hjá Suðurnesjamönnum þar sem þessi þrekmót hafa verið þétt setin af flottu íþróttafólki af öllu landinu. Þess má geta að þættir um EAS þrekmótaröðina verða sýndir næstu fjóra laugardaga á RÚV og verður fyrsti þátturinn sýndur lau. 27.október kl. 16.30.